132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:58]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til starfa innan heilbrigðisþjónustunnar er viðvarandi og hann á við um allar heilbrigðisstofnanir landsins. Hann er ekki bundinn við Landspítalann eingöngu. Vandinn er heldur ekki bundinn við Ísland. Hann er alþjóðlegur. Vandinn er hins vegar brýnn. Hann varðar öryggi sjúklinga og starfsaðstæður á heilbrigðisstofnunum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að sterk tengsl eru á milli mönnunar innan hjúkrunar og vinnuálags annars vegar og hættu á mistökum í meðferð sjúklinga hins vegar.

Um síðustu aldamót bentu kannanir til að það vantaði að manna um 300 stöðugildi hjúkrunarfræðinga og um 320 stöðugildi sjúkraliða samkvæmt stöðuheimildum á landinu öllu. En mun meira ef miðað var við þörf. Líklegt má telja að vandinn hafi aukist fremur en hitt á síðustu árum. Þörf fyrir menntafólk innan hjúkrunar eykst jafnt og þétt. Þar kemur til að þjóðin er að eldast. Stærri árgangar hjúkrunarfræðinga eru að fara á eftirlaun og aðsókn í sjúkraliðanám hefur minnkað verulega.

Við Íslendingar erum hins vegar betur í stakk búnir til að takast á við þetta verkefni en flestar aðrar þjóðir. Því ólíkt því sem gerist annars staðar í heiminum er aðsókn og áhugi ungs fólks á hjúkrunarnámi mikill. Þá eru heilbrigðisstofnanir í stakk búnar að taka við fleiri nemendum. Aðgangstakmarkanir í hjúkrunarfræðideildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri gera það hins vegar að verkum að aðeins um helmingur nemenda halda áfram námi eftir samkeppnispróf. Vandinn hjá okkur er því tæknilegur, ekki kerfisbundinn og því auðveldara að leysa hann.

Jafnframt þarf að gera átak til að auka áhuga ungs fólks á sjúkraliðanámi og þar með einnig möguleikum ófaglærðs fólks í umönnunarstörfum að auka þekkingu sína.

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrum sinnum vakið athygli á þessum vanda hér á hinu háa Alþingi á undanförnum árum. Ég legg áherslu á að heilbrigðis- og menntamálaráðherrar og stjórnendur heilbrigðisstofnana og kennslustofnana taki höndum saman til að leysa þennan vanda til lengri og skemmri tíma. Þörfin er brýn og aðstæður hagstæðar til að takast á við hann.