132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:33]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samfylkingin vill Ríkisútvarp. Vel skilgreint almannaútvarp. Það er ekki spurning um það. Ég tek undir það sjónarmið að túlka megi frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. sem pólitíska atlögu að einkareknu ljósvakamiðlunum í landinu. Ég tek undir þau sjónarmið. Þótt ég sé ekki að fullyrða að svo sé þá held ég að leiða megi að því líkum. Ég tel að túlka megi frumvarpið eins og það lítur út, sérstaklega í samhengi við fjölmiðlalögin fyrir tveimur árum sem voru að mínu mati hrein og bein pólitísk atlaga að fjölmiðlum í eigu Baugs, sé einnig partur af þeirri atlögu ef svo mætti segja. Áhlaup sjálfstæðismanna að fjölmiðlum Baugs nr. 2. Ég held það megi leiða líkum að því þó það verði að koma í ljós hvernig fer fyrir frumvarpinu áður en það verður ljóst.

Forskot Ríkisútvarpins er það mikið með þessu móti. Það er engin endurskilgreining á hlutverki þess og 2.500 millj. kr. meðgjöf frá ríkinu í hlutafélag er gífurlegt forskot í samkeppninni. Það er gífurlegt frávik frá heilbrigðri og eðlilegri samkeppni. Ég tel að í því felist atlaga að svigrúmi einkarekinna ljósvakamiðla til rekstrar á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem er lítill og þess vegna á að takmarka umfang Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði. En ekki að gefa í eins og gert er í frumvarpinu án þess að endurskilgreining eigi sér stað á hlutverkinu og umfang þess á auglýsingamarkaði takmarkað í áföngum á næstu árum.

Ég þakka að sjálfsögðu hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur framsóknarmanni fyrir að veita mér andsvar og svara með þeim hætti ákalli mínu til Framsóknar um félagslega samstöðu um mikilvægustu gildin í íslensku samfélagi og skora að sjálfsögðu á hana að taka bónorði mínu í síðara andsvari sínu.