132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:38]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður átti við þau sjónarmið mín að takmarka eigi umfang Ríkisútvarpins að auglýsingamarkaði til að gefa einkareknu miðlunum aukið rými til rekstrar, þá eru þau held ég uppi hjá mjög mörgum í Samfylkingunni. Nefndarálitið tekur ekki á öllum þáttum málsins. Það eru hinar breiðu línur og samstaða stjórnarandstöðunnar í málinu sem fram koma í mjög góðu og vönduðu nefndaráliti.

Ég hef mínar eigin skoðanir á Ríkisútvarpinu og spyr engan mann um leyfi fyrir þeim En að sjálfsögðu á ég marga skoðanabræður. Að mínu mati er það algert grundvallaratriði að skilgreina almannaþjónustuhlutverkið.

Af hverju eigum við að borga 2.500 millj. á ári af opinberu fé til fjölmiðlarekstrar? Til að spyrja hv. þingmann sem er frumvarpshöfundur að því að selja eigi Ríkisútvarpið: Af hverju er hann að berjast fyrir því núna að ríkið borgi 2.500 millj. á ári með fjölmiðli sem hann vill ekki taka beint undir að eigi að takmarka umsvif þess á auglýsingamarkaði á móti þannig að einkareknir miðlar, sem ég hefði haldið að honum væru kærir, einkarekstur í hvaða mynd sem er, ættu aukið rými til rekstrar því fjölmiðlamarkaðurinn er smár hérna.

Þess vegna verðum við að gæta þeirrar sanngirni að takmarka umsvif Ríkisútvarpins og draga saman á einhverju árabili. Hvernig útfærum við það? Það eru ýmsar leiðir til þess. Margar leiðir til þess. Erlendar fyrirmyndir og aðrar. Það er bara tæknilegt atriði að útfæra það. Það er ekkert mál.

En ég vildi spyrja hv. þingmann á móti. Hvað varð um áformin um söluna í fyrsta lagi? Og í öðru lagi: Tekur hann undir þau orð Ara Edwalds, forstjóra 365, að í frumvarpinu megi finna áhlaup ríkisstjórnarinnar á einkarekstur í fjölmiðlun á Íslandi?