132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:05]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil gera nokkur ákvæði frumvarps um Ríkisútvarpið hf., þ.e. samkeppnis- og hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, að umtalsefni.

Fyrst vil ég víkja að ákvæði til bráðabirgða, 2. og 3. mgr. Í 2. mgr. segir:

„Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins.“

Þetta þýðir á mæltu máli að þarna inn fara allar eignir og nettóniðurstaða þessa eigna- og skuldasafns myndar hlutaféð sem menntamálaráðherra á samkvæmt 3. mgr. að ákveða. Við þetta bætast síðan 5 millj. kr. í framlagi. Ef eignir Ríkisútvarpsins í dag verða metnar 20 milljarðar kr. þá verður hlutaféð 20 milljarðar kr. og 5 millj. kr. Séu eignirnar metnar 100 milljarðar kr. þá verður meðlagið í hlutafélaga- og samkeppnisreksturinn 100 milljarðar kr. og 5 millj. kr.

Þetta segir þó ekki alla söguna um þær eignir sem þarna eru í húfi. Meðal eigna Ríkisútvarpsins eru ómetanlegar þjóðargersemar sem eru í þjóðareign. Þetta eru þjóðminjar, þetta er saga þjóðarinnar. Þarna eru fágætar upptökur, afar merkilegar heimildir, svo sem viðtöl við þjóðþekkta karla og konur sem settu sterkan svip á og mótuðu þjóðlíf 20. aldar og síðari hluta 19. aldar. Þarna er að finna upplestur þjóðskálda, svo sem nóbelsskáldsins. Þarna er að finna gagnmerk útvarpsleikrit og sögulega fréttaþætti af miklum tíðindum 20. aldar. Þarna er að finna ákaflega dýrmæta menningarþætti, útvarpserindi, fræðsluerindi, fróðleik og vísindi. Þarna er að finna plötusafn og upptökur sem eiga engan sinn líka hér á landi að ógleymdri Stradivaríusarfiðlunni sem var í fréttum metin á annað hundrað milljóna kr. Ef til vill gæti ríkisstjórnin spilað á hana í anda þegar Róm hins íslenska efnahagslífs brennur. Þarna eru ótaldir ótal fleiri munir. Ríkissjóður leggur fram allar þessar eignir og menntamálaráðherra á að ákveða heildarfjárhæðina.

Þessar eignir verða ekki metnar til fjár. Þær eru þjóðareign rétt eins og Þingvellir, eins og Gullfoss, eins og handritin á Árnastofnun, rétt eins og þjóðminjar á Þjóðminjasafni og málverkin okkar í Listasafni Íslands og fleira mætti nefna. Þorra þjóðarinnar þætti a.m.k. fráleitt að hlutafjár- og einkavæða þessar gersemar. Sér einhver fyrir sér Þjóðminjasafnið hf., Handritasafn Árnastofnunar hf., Þingvelli hf. eða Gullfoss hf.? Það er að mínu mati jafnfráleitt að samkeppnis- og hlutafélagavæða þjóðargersemar okkar sem Ríkisútvarpið hefur unnið á undanförnum áratugum. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hefur verið hugsað um þetta? Með fullri virðingu fyrir hæstv. menntamálaráðherra þá getur hún ekki metið ómetanlegar þjóðargersemar til fjár. Við höfum vítin til að varast þau, svo sannarlega.

Muna ekki allir þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir og gefnir, að þeim fylgdu ótrúlegar gersemar sem voru ekki einu sinni teknar inn í verðið. Þá á ég við málverk og fleira úr þjóðareign. Þær þjóðmenningarlegu eignir RÚV, þjóðararfleifðin sem ég hef gert að umtalsefni, verður að taka undan hlutafjár- og samkeppnisvæðingunni ef sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, þ.e. ef ríkisstjórnin vill halda þessu frumvarpi til streitu. Það verður að taka þessar gersemar undan.

Frumvarpið gefur auk þess fullt tilefni til að óttast um þessar eignir. Segjum að reynt yrði að meta þær til fjár og þær yrðu metnar á 100 milljarða eða 200 milljarða kr., væri það ekki vatn á myllu Samtaka atvinnulífsins og þeirra sem segja frumvarpið í blóra við EES-reglur? Ég er hræddur um það. Ég kem betur að því síðar.

Af hverju er ástæða til að óttast um þessar gersemar? Jú, það er vegna þess að frumvarpið veitir ekki tryggingu fyrir því að þær verði ekki seldar. Ég ætla að færa frekari rök að því. Í 1. gr. frumvarpsins segir:

„Ríkisútvarpið hf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Í greinargerðinni segir að engin áform séu uppi um að selja hluti í félaginu. En hvað skyldi þessa grein þýða? Jú, hlutaféð verður ekki selt. En það er ekkert því til fyrirstöðu, miðað við þetta orðalag, að einstakar eignir félagsins verði seldar þótt hlutaféð verði eftir. Það er hægt að selja fiðluna til að fjármagna kaup á bandarískum gaman- eða spennuþáttum. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Ríkisútvarpið getur keypt lausafé og selt lausafé og selt þessar þjóðargersemar án nokkurra breytinga á lögum. Það er eingöngu ef hlutafélagið sem slíkt verður selt, hlutafé þess, að það brýtur í bága við 1. gr. Við höfum séð þetta á einkamarkaði þegar bankarnir gengu inn í fyrirtæki, þegar þeir voru búnir að gleypa hvert einasta fyrirtæki á landinu, að þeir seldu innan úr þeim allt mögulegt og seldu síðan nafnið sem eftir stóð í áframhaldandi rekstur. En þá var búið að selja allar verðmætustu eignirnar áður. Það er einfalt að gera við Ríkisútvarpið samkvæmt þessu lagafrumvarpi. Það er hægt að strippa hlutafélag eignum án þess að það sé selt. Það er engin trygging í 1. gr. fyrir því að við höldum þeim þjóðargersemum sem ég hef gert að umtalsefni.

Skyldu vera einhver önnur ákvæði í lögunum sem taka á þessum vanda? Skyldi hafa verið hugsað fyrir þessu? Í 4. gr. frumvarpsins segir:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.“

Er einhver trygging þarna? Nei, hún er ekki þarna, þetta er opinn víxill. Síðan hefur meiri hluti menntamálanefndar lagt til breytingar á 4. gr. og bætt við hana nýrri 2. mgr. sem hljóðar svo:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.“

Enn þá er frítt spil varðandi þjóðargersemarnar. Enn er það í húfi að þær verði bitbein á samkeppnismarkaðnum. Síðan segir í nýrri tillögu að 3. mgr. 4. gr., og takið nú vel eftir:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að sjá til þess að frumflutt dagskrárefni félagsins verði varðveitt til frambúðar.“

Svo mörg voru þau orð. Þeim er heimilt, af hverju stendur ekki skylt þarna? Það er full ástæða að óttast um þjóðargersemarnar. Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um verkefni stjórnarinnar. Hún á að taka ákvarðanir í meiri háttar málum. Það stendur hvergi að hún eigi að passa upp á þessar þjóðargersemar. Samkvæmt 11. gr. hefur útvarpsstjóri nánast alræðisvald til að kaupa og selja eignir og gera hvað sem vantar til og nota þær til að fjármagna samkeppnisrekstur. Þá er ég hræddur um að hljóð heyrist úr horni og ESA-kærur birtist, kærur til Samkeppnisstofnunar, málaferli fyrir dómstólum o.s.frv.

Hvar eru sérákvæðin í þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið, um þjóðargersemarnar? Ég held því fram að ríkið sé vörslumaður þessara eigna, rétt eins og ríkið er vörslumaður Þingvalla, Gullfoss, handritanna, en sé aldrei heimilt að selja þjóðareignir. Aldrei. Það er ekki minnst á þessar gersemar í greinargerð með frumvarpinu. Það eru engar tryggingar fyrir því að þessi menningararfleifð fari ekki fyrir bí. Það er óásættanlegt.

Vilji ríkisstjórnin halda þessu frumvarpi til streitu, þessu ólánsfrumvarpi, þá er það lágmarkskrafa að þessar gersemar verði teknar undan, settar undir sjálfseignarstofnum eða sérstaka ríkisstofnun. Sjálfseignarstofnunarformið er ágætt að því leyti að það er gott eftirlit með því og tilgangi slíkrar stofnunar verður ekki breytt nema að uppfylltum mjög þröngum skilyrðum. Þetta frumvarp má óbreytt aldrei verða að lögum. Það er atlaga að menningu okkar.

Í annan stað vil ég fjalla um atriði sem er nátengt þessum þætti, nátengt þessum gersemum, þ.e. eignir þeirra hundruða listamanna, rithöfunda, leikara og útvarpsmanna sem lagt hafa Ríkisútvarpinu ómetanlegt lið frá því það var sett á stofn. Þetta heitir höfundarréttur. Hann er undirorpinn friðhelgi eignarréttar samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins. Hefur verið hugað að því? Hefur verið hugað að því að ríkið geti framselt þessi réttindi, höfundarréttinn, til hlutafélags í samkeppnisrekstri? Það er ekki að sjá að svo sé gert. Listamennirnir, útvarpsmennirnir, rithöfundarnir, réttindi þeirra eru samkeppnis- og hlutafélagavædd án þess að þeir hafi verið spurðir. Þeir eru seldir eins og fé á fæti. Það hefur hvorki verið leitað samþykkis eða samráðs við þá. Þeir eiga þó langstærstan þáttinn í því að skapa þær þjóðargersemar sem ég hef gert að umtalsefni.

Hvað skyldi segja um þetta mikla álitamál í frumvarpinu? Ekki neitt. Það er endurtekning á gömlu útvarpslögunum þegar eignin var undir ríkinu. En vel að merkja, það er verið að búa til sjálfstæða lögaðila, sjálfstæða lögaðila í samkeppnisrekstri. Ekki ríkisfyrirtæki með starfsmönnum með réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eða annað slíkt, ekki alþingisstofnun eða neitt slíkt. Það er verið að búa til hlutafélag í samkeppnisrekstri. Það segir þarna í nýrri 3. mgr. 4 gr., eða tillögu að nýrri málsgrein, niðurlagi hennar:

„Er félaginu enn fremur heimilt að hafa til útláns, sölu og dreifingar valið dagskrárefni sem flutt hefur verið, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.“

Enda sé gengið frá slíkum samningum. Það þarf að gera nýja samninga alveg upp á nýtt. Ef það tekst ekki, vilji rétthafarnir eða erfingjar þeirra ekki semja við Ríkisútvarpið hf. í samkeppnis- og einkarekstri, hvað verður þá um þetta efni? Skyldi ekki verða svo að það yrði í uppnámi? Verður það ekki í uppnámi? Megum við þá vænta þess að fá ekki að njóta flutnings þessa efnis í endurflutningi? Er það það sem blasir við? Hefði nú ekki verið nær að ganga til samninga við höfundarréttarsamtökin áður en frumvarpinu var ýtt á flot og spyrja: Viljið þið vera með? Viljið þið taka þátt í þessu? Viljið þið gefa okkur vilyrði fyrir því að þetta geti gengið eftir? Það er ekki orð um það í þessu frumvarpi. Það er ekki orð í greinargerð. Ég sé ekki umsagnir frá STEF, höfundarréttarsamtökum sem fara með þessa hagsmuni. Ég sé ekki að það hafi verið leitað til þeirra. Ég skil það ekki. Þetta er ekki sérstaklega vel hugsað, að minnsta kosti ekki lögfræðilega. Væri ekki rétt að fá vilyrði frá höfundarréttarhöfum, eigendum þessara gersema, fyrir því að það mætti hlutafélagavæða þá og henda þeim út í samkeppnisrekstur?

Getur Alþingi flutt réttindi hundruða eða þúsunda listamanna og fleiri, lífs eða liðinna, yfir í hlutafélags- og samkeppnisrekstur með einu lagasetningarpennastriki? Mitt svar er nei. Ég þykist vita að samningur Ríkisútvarpsins í dag við þessa höfundarréttarhafa mæli ekki fyrir um flutning þeirra réttinda yfir í samkeppnisrekstur þar sem þessar gersemar eru í húfi, í reiptogi, í samkeppni, kærumálum til Evrópu o.s.frv.

Ég beini þessum spurningum auðvitað til hæstv. menntamálaráðherra og geri kröfu um skýr svör um framsalið. Ég verð í þessu sambandi líka að minna hæstv. ráðherra á að hér á landi eru í gildi höfundarréttarlög. Fólki er ekki sama við hverja það semur. Mér er alls ekki sama við hvern ég sem. Ég get ekki samið við Jón Jónsson úti í bæ um réttindi ef hann hleypur og framselur þau án minnar vitundar. Það getur Jón Jónsson úti í bæ ekki gert nema hafa samþykki mitt samkvæmt samningum. Hefur ríkið það í krafti Ríkisútvarpsins? Meginregla höfundarréttarlaganna er að höfundur að bókmenntaverki eða listaverki á eignarrétt á því með þeim takmörkunum sem í lögum þessum greinir. Þetta er grunnstefið í þessum lögum. Meginreglan er því sú að réttur Ríkisútvarpsins í dag verður ekki framseldur án samþykkis.

Síðan er í lögunum víða tryggður réttur þessara höfunda varðandi breytingar og þegar rætt er um flutning verks í útvarpi þá nær það bæði til hljóðvarps og sjónvarps. Það er óheimilt að breyta verki án samþykkis, búa til safndiska eða eitthvað slíkt, taka hluta út úr efni og skeyta því saman við annað, án samþykkis höfundar. Ríkisútvarpið hf. verður með þetta safn, ef það er þá rétt að því komið, í gíslingu.

II. kafli laganna skýrir ákaflega vel hvað ég er að fara í þessum efnum um takmarkanir á höfundarrétti, að það megi gera þrjú eintök til einkanota. Ef á að gefa út meira eða endurflytja þarf samning. Það þarf gagnkvæman samning. Það er bara þannig og ég ítreka það. Það er engum sama um það við hvern hann semur. Algengasta og skiljanlegasta dæmið í þessu er að maður leigi út íbúðarhúsnæði. Leigjandinn getur ekki framleigt húsnæðið nema í leigusamningnum sé áskilinn réttur til þess. Ég hygg að það sama gildi um höfundarréttinn.

Það segir beinlínis í 28 gr. laganna að framsalshafa sé ekki heimilt að framselja öðrum höfundarréttinn án samþykkis. Það stendur líka í þeirri grein, hafi nú verið samið um það í samningum að það megi framselja höfundarréttinn:

„Þrátt fyrir slíkt framsal ber framseljandinn áfram ábyrgð á efndum skuldbindinga sinna við höfund.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú. Það þýðir að ríkið er í ábyrgð fyrir Ríkisútvarpið hf. gagnvart höfundunum. Er það ekki ríkisstyrkur? Ríkisábyrgð, er það ekki ríkisstyrkur? Þannig hef ég skilið það. Þarf ekki að hugsa um þetta áður en Samtök atvinnulífsins, Verslunarráð og aðrir reiða til höggs til að drepa Ríkisútvarpið hf. í dróma? Er þetta ekki eitt vopnið í vopnabúrinu? Ég hygg að svo sé.

Íslenska ríkið er bundið Bernarsáttmálanum til verndar bókmenntum og listaverkum. Við höfum staðfest þann alþjóðasamning, Bernarsáttmálann. Heimild til þess var veitt með lögum nr. 80/1972. Þar er m.a. skilgreining á hugtakinu bókmenntir og listir. Það nær yfir hvers kyns form. Það nær líka yfir útvarpsefni og þar fram eftir götunum.

Þar kemur fram að höfundar bókmennta og listaverka hafi einkarétt til að leyfa eftirgerðir. Þar kemur líka fram að höfundar þeirra hafi einkarétt á að leyfa að verk þeirra séu flutt í útvarpi og sjónvarpi o.s.frv., endurgerð verksins og þar fram eftir götunum. Ég verð að segja alveg eins og er, það er afar óvarlegt að samþykkja þetta frumvarp óbreytt að þessu leyti. Það er glapræði. Hreint glapræði. Sú vinna sem þarf að leggja í varðandi þjóðargersemar og höfundarréttinn er ekki vinna sem maður klárar á einni helgi eða einni viku. Það þarf að hugsa þetta djúpt. Það þarf að finna út hvaða gersemar þetta eru. Það þarf að finna hvað er í húfi. Það þarf að fara fram eignakönnun. Ég veit hins vegar að þessar þjóðargersemar hafa verið í fjársvelti undanfarin ár. Ríkisútvarpið hefur margsinnis beðið um fjármagn til að varðveita þessar gersemar en ekki fengið.

En fyrir mér er þetta slík vinna að ríkisstjórnin ætti að kalla þetta frumvarp til baka, nota sumarið í að fara yfir þetta mál og leggja það fyrir að hausti. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.

Hugaði hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ekki að þessum verulegu vafamálum áður en þeir fóru að leika sér að þessu fjöreggi íslenskrar menningar, menningararfleifðinni sem RÚV varðveitir fyrir okkur? Enginn ráðherra menningar getur leikið sér að þessum eldi, farið jafnóvarlega með menningargersemar eða höfundarréttindi þeirra sem sköpuðu þær. Frumvarpið er algjörlega óforsvaranlegt.

Í þriðja lagi vil ég gera að umtalsefni þátt sem er fyrir mér ekki síður mikilvægur en það eru starfsréttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins. Það er lýðræðislegur réttur þeirra og það er lýðræðislegur réttur þjóðarinnar, okkar allra, sem tengist því líka.

Í bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu er fjallað um réttindi starfsmanna. Þar er þeim lýst í mjög óljósu máli. Það vakna ótrúlega margar spurningar við lesturinn, a.m.k. fyrir lögmann eins og mig. Ég sé fyrir mér ótrúlega mörg málaferli af því að ekki er hugað að öllu. Þar segir að þegar stofnunin verði lögð niður fari um réttindin samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um aðilaskipti.

Í lögunum um aðilaskipti er það þannig að starfsmaður sem fer frá einum aðila, þ.e. til Ríkisútvarpsins hf. í þessu tilviki, heldur öllum starfsréttindum sínum hvaða nafni sem þau nefnast. Hvað gerir frumvarpið ráð fyrir? Það gerir ráð fyrir að svo sé ekki. Lögfestir undanþágu frá því varðandi biðlaunarétt, varðandi lífeyrisrétt og varðandi starfskjörin almennt séð.

Það segir í skýringum með þessu bráðabirgðaákvæði að tilgangur þess sé að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins verði „tryggð með“ — segir orðrétt — „eðlilegum hætti og sambærileg öðrum tilvikum um breytingar á rekstrarformi ríkisstofnana, samanber ákvæði í frumvörpum um Rafmagnsveitur ríkisins og Matvælarannsóknir hf.“ Út úr þessu ákvæði má lesa bara eitt: Að starfsréttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins, lífeyrisréttindi og biðlaunaréttur þeirra, verði skert með sama hætti og gerðist þegar Síminn, Rafmagnsveitur ríkisins og Matvælastofnun voru hlutafélagavædd.

Það segir beinlínis í skýringunum að biðlaunaréttur starfsmanna falli niður, þeir fara inn á almenn réttindi. Það fer ekki milli mála að frumvarpið felur í sér alvarlega kjaraskerðingu og verulega skerðingu á starfsöryggi. Af því að því var haldið hér á lofti í umræðunni um athugasemdir um störf þingsins síðastliðinn miðvikudag að menn hefðu áhyggjur af stjórnarskránni — það er auðvitað heilagasta skylda okkar sem þingmanna að hafa áhyggjur af henni, að hafa áhyggjur af mannréttindum, það er frumskylda okkar — þá er það nú svo að frumvarpið mælir fyrir um lífeyrisskerðingu. Þeir karlar og þær konur sem starfa hjá Ríkisútvarpinu mega búast við slíkri skerðingu. Ef minnsti vafi er á því að svo sé — í mínum augum er það ekki — nægir það til þess að draga ætti þetta frumvarp til baka. Lífeyrisréttindi njóta friðhelgi samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sama gildir um biðlaunaréttinn ef hann er skorinn niður. Ég lít á hann sem verðmæti sem varin séu af stjórnarskránni.

Menn hafa þungar áhyggjur af því að ekki sé hægt að leiðrétta þau mistök sem Alþingi gerði rétt fyrir jól 2002, ef ég man rétt, varðandi eftirlaun alþingismanna og ráðherra vegna þess að það hafi orðið til þess að einhverjir fyrrverandi stjórnmálamenn, sem hafa orðið sendiherrar eða tekið upp störf á öðrum vettvangi og horfið af þingi, hafi notfært sér þessi mistök. Mér skilst að þeir séu teljandi á fingrum annarrar hasndar. Nú er staðan sú að ekki er hægt að lagfæra mistökin frá 2002 vegna þess að með slíkri breytingu yrði farið á skjön við stjórnarskrána.

Sömu menn, sömu hv. alþingismenn og ráðherrar sem tala svona, mæla fyrir um að lífeyrisréttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins séu skert og biðlaunarétturinn tekinn af. Sér er nú hver vitleysan eða þversögnin. Starfsöryggi og uppsagnarréttur er skertur líka. Það var sagt í eina tíð að það væri í lagi að hafa ríkisstarfsmenn á lægri launum vegna þess að þeir væru umvafðir réttar- og starfsöryggi, lífeyrisréttindum og öðru slíku. Það sem tekið er af þeim í fyrsta lagi og ég vil nefna fyrst er starfsöryggi að því er varðar uppsagnir og málsmeðferðarreglur við uppsögn. Það gildir á hinum almenna vinnumarkaði að ekki þarf að segja starfsmanni upp með rökstuðningi eða af málefnalegum ástæðum. Þar nægir skrifleg uppsögnin ein. Rétt eins og þegar fréttastjóra Stöðvar 2, sem hafði staðið sig með miklum sóma í starfi, var sagt upp fyrirvaralaust, að vísu greidd laun á uppsagnarfresti en henni var gert að rýma skrifborðið sitt sama dag og hverfa af vettvangi. Allir sem hafa lent í slíku vita hversu mikil móðgun og ærumeiðing felst í slíkri athöfn. Ætlast er til að starfsmenn Ríkisútvarpsins búi við þetta og að þeir starfsmenn sem endurráði sig fari inn á þessi kjör.

Hvað er að því að láta öll þessi réttindi fylgja inn í Ríkisútvarpið? Hvað er að því að hafa Ríkisútvarpið hf. gagnsætt með lýðræðislegum reglum, lýðræðislegum réttindum starfsmanna? Ég hefði haldið að það hefði orðið sterkara fyrir bragðið. Starfsmanni Ríkisútvarpsins sem endurræður sig, ef það slys verður að þetta frumvarp verði að lögum, er hægt að segja upp störfum daginn eftir án nokkurrar rökstuddrar ástæðu. Ef alræðisvaldsútvarpsstjórinn er nú svo góður að svara einhverju þá skiptir engu máli hvort það er málefnalega rökstutt eða ekki. Starfsmaðurinn á enga úrkosti vegna þess að uppsögnin er lögleg þó að hún sé ómálefnaleg. Útvarpsstjóri getur hreinlega sagt við viðkomandi starfsmann: Ég ætla að segja þér upp ef þú lækkar ekki í launum um 30.000 kr. á mánuði. Ég vil ekki lækka í launum, segir þá starfsmaðurinn. Þá er þér sagt upp með þriggja mánaða fresti.

Frumvarpið er aðför að starfskjörum starfsmanna Ríkisútvarpsins og það brýtur gegn stjórnarskrárvörðum eignarréttindum þeirra. Það er líka aðför að lýðræðislegum réttindum almennings. Ef einhver minnsti vafi er á stjórnarskrárbrotum á að túlka þann vafa stjórnarskránni í hag og starfsmönnunum í hag. En það er líka aðför að lýðræðislegum réttindum starfsmanna og miklu fremur lýðræðislegum réttindum almennings. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins eru tekin úr sambandi afar mikilvæg lögbundin og lýðræðisleg réttindi. Hvað er ég þá að tala um? Jú, ég er að tala um það að verið sé að kippa úr sambandi aðgengi að umboðsmanni Alþingis. Það er verið að kippa úr sambandi þeirri gríðarlega mikilvægu lýðræðislegu tryggingu sem felst í umboðsmanni Alþingis. Þetta fer utan hlutverks hans. Það er verið að kippa úr sambandi stjórnsýslulögum gagnvart starfsmönnum og gagnvart almenningi. Ég er að tala um almenning líka, hlustendur og þá sem eiga skipti við Ríkisútvarpið. Það fara út allar grundvallarlýðræðisreglur stjórnsýslulaga um rökstuðning, um meðalhóf, um vanhæfi og hvað sem er, jafnræðisreglan. Allt þetta fer út. Öllu þessu er kippt burt með einu löggjafarpennastriki. Og þar fyrir utan er upplýsingalögunum kippt úr sambandi, öll þessi lagafrumvörp sem mynda kjarnann í því að íslenskt þjóðfélag sé opið lýðræðislegt þjóðfélag, gegnsætt lýðræðisþjóðfélag, og algjör grundvallaratriði.

Ég get bara sagt að eftir að þessi lög voru sett á síðasta áratug 20. aldarinnar breyttist starf mitt sem lögmaður. Það varð allt miklu auðveldara. Það var hægt að skrifa stjórnvöldum og fá skýr svör. Það var ekki þannig áður að hægt væri að biðja um upplýsingar. Það var ekki þannig. Lýðræðislegt aðhald að Ríkisútvarpinu hf. er einfaldlega skert verulega. Lýðræðislegur réttur hvers einstaklings, einstaklingsfrelsið sem sjálfstæðismönnum er svo gjarnt að tala um á tyllidögum, frelsi hvers einstaklings til að gera sig gildandi gagnvart Ríkisútvarpinu hf. er horfið. Það er borið fyrir borð. Ríkisútvarpið hf. hefur frítt spil.

Það minnir mig á það, þegar búið er að henda þessum lýðræðislegu réttindum almennings og starfsmanna út, hvert skyldi þá vera hlutverk útvarpsþjónustu í almannaþágu? Hvert skyldi nú vera eitt hlutverkið? Samkvæmt 5. tölul. 3. gr. er það að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana og gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Er nú ekki laglegur heimanmundurinn að fara af stað með því að kippa lýðræði almennings í burtu og byggja á stjórnarskrárvafasömum lagasetningaraðferðum og segja svo: Jæja, Ríkisútvarpið hf., nú átt þú að stunda lýðræði. Það verður búið að taka lýðræðið úr sambandi þegar Ríkisútvarpið hf. er stofnað og einræða það.

Fyrir mér er þetta bláköld forræðishyggja og enn á ný opinbera Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fjandsamlega afstöðu sína til ríkisstarfsmanna, hreina og klára fjandsamlega afstöðu til ríkisstarfsmanna. Það skyldu starfsmenn þeirra ríkisstofnana sem enn hafa ekki verið einkavæddar og hent út á guð og gadd samkeppnisreksturs hugleiða. Það segir beinlínis í þessu frumvarpi: Við viljum ekki að þið hafið þau réttindi sem þið hafið í dag. Hlutafélagavæðing ríkisstofnana er sama sem starfskjaraskerðing. Það er brýnt að ríkisstarfsmenn hafi þetta í huga, bæði í kosningunum í vor og alþingiskosningum að ári og æ síðan.

Í fjórða lagi ætla ég að fjalla um það í ræðu minni að nú hefur það gerst að í Morgunblaðinu í gær voru birtar tvær auglýsingar undir sömu fyrirsögninni. Fyrirsögnin er: „Frumvarpið um Ríkisútvarpið er meingallað“. Önnur auglýsingin er frá Samtökum atvinnulífsins og hin er frá Viðskiptaráði Íslands. Í auglýsingu Samtaka atvinnulífsins, sem er úr umsögn þeirra til menntamálanefndar um frumvarpið og er dagsett 15. febrúar 2006, segir orðrétt:

„Samtök atvinnulífsins telja því nú að frumvarpið samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki, sé í andstöðu við markmið samkeppnislaga og tryggi ekki ásættanlegt jafnræði milli opinberra aðila og einkaaðila í útvarpsrekstri. Með vísan til framanritaðs geta Samtök atvinnulífsins ekki mælt með því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd.“

Texti viðskiptaráðsins er úr Skoðun Viðskiptaráðs Íslands sem dagsett er 24. febrúar 2006 og þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi menntamálaráðherra er verið að blása til sóknar ríkisrekstrar gegn einkarekstri sem hefur þegar haslað sér völl á markaðnum. Þessi framganga ríkisins spillir heilbrigðum rekstrarskilyrðum á fjölmiðlamarkaði. Þannig liggur í augum uppi að ef frumvarpið fjallaði ekki um RÚV heldur fyrirtæki í einhverri annarri atvinnustarfsemi í landinu sæist glögglega hve frávik frá eðlilegum leikreglum markaðarins eru hrópandi í frumvarpinu.“

Hverjir skyldu nú vera að vígbúast ef þetta yrði að lögum? Hverjir eru að vígbúast? Þessu var fylgt eftir með grein sem hér hefur verið gerð grein fyrir, ítarlegri og rökstuddri grein eftir Guðlaug Stefánsson hagfræðing, sem starfar hjá Samtökum atvinnulífsins, þar sem hann fjallar um það ríkið geti ekki — ég umorða það — gefið slíkt meðlag með Ríkisútvarpinu hf. að það skerði samkeppnisstöðu.

Ég hef nefnt að ríkið verður í ábyrgðum fyrir höfundarréttinn. En skyldi það ekki verða vopn í væntanlegu stríði Stöðvar 2 eða þeirra tveggja risa sem núna eru á fjölmiðlamarkaði gegn Ríkisútvarpinu, að Ríkisútvarpið hf. fær þjóðargersemarnar? Skyldi Ríkisútvarpið hf. ekki hafa eitthvert forskot? Hefur ríkið eitthvert leyfi til að afhenda einum rekstraraðila, einum sjálfstæðum lögaðila í samkeppnis- og hlutafélagarekstri þessi ómetanlegu auðæfi sem eru efni, uppspretta í hundruð sjónvarps- og útvarpsþátta, bæði með hreinum endurflutningi og svo annarri vinnslu, til kvikmyndagerðar, sjónvarpsþáttagerðar og til allra mögulegra hluta? Skyldi það ekki verða vopn í baráttunni sem fer í hönd?

Með því að færa allar eignir RÚV í dag til Ríkisútvarpsins hf. sem ég segi að hæstv. menntamálaráðherra geti ekki metið en sem má ætla að kunni að hlaupa á hundruðum milljarða ef menn reyndu það. Skyldi það meðlag með Ríkisútvarpinu hf. verða samþykkt niðri í Evrópu hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA? Ég er hræddur um ekki, fyrir utan svo milljarðaframlagið á hverju ári. Þetta frumvarp er sem sé vopnabúr illdeilna, illvígra samkeppnisdeilna. Í húfi eru þjóðargersemarnar og í húfi eru eignarréttindin, höfundarrétturinn, réttindi starfsmanna og í húfi eru lýðræðisleg réttindi hlustenda og áhorfenda.

Ég spurði mig þegar ég fór að kynna mér þetta mál: Skyldi það vera tilgangurinn að samkeppnisúrskurður Samkeppnisstofnunar sem vænta má, illdeilurnar, eða ESA eða dómar innan lands, innlendra dómstóla eða EFTA-dómstólsins gangi endanlega af Ríkisútvarpinu dauðu? Skyldi Ríkisútvarpið hf. rísa undir þeim málaferlum? Er frumvarpinu ætlaður fyrsti leikurinn eins og það er? Er það fyrsti leikur í að kviksetja Ríkisútvarpið? Ég ætla nánast að svo sé miðað við hvernig það er úr garði gert. Kviksetja menningarstarfsemi sem til þessa hefur verið rekin án gróðahyggju, án peningahugsunar, á öðrum forsendum en að skila arði, ekki peningalegum arði, heldur menningarlegum arði til þjóðarinnar sem við höfum fengið svo ríkulega að það hálfa væri nóg. Þessu á að fórna á sviði samkeppnisrekstrar. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa þegar vígbúist og vilja einkavædda einokun á fjölmiðlasviðinu og þar eru bara tveir fyrir. Það eru miðlar í eigu Baugs og fleiri annars vegar og það eru Síminn og Skjár einn og sumir spá því að Morgunblaðið falli inn í þann hóp. Skyldu þessir tveir aðilar ekki berjast um erfðagóssið þegar það er búið að kviksetja eða steypa Ríkisútvarpinu í glötun? Þá er eina spurningin hvor nær fengnum, sem ég get alveg eins kallað í þessum ræðustól, ránsfenginn.

Eitt enn, frú forseti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að vilji standi til þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins að gera það að sjálfseignarstofnun. Ég veit að það eru mjög margir sem hugsa þannig og ég hef reyndar verið sannfærður um það í viðtölum við fjölda manns. Sjálfseignarstofnuninni eru settar skýrar reglur í lögum sem ég ætla ekki að fara yfir en þær lúta eftirliti Ríkisendurskoðunar sem heyrir að því er ég best veit beint undir Alþingi og það eru varanlegar og góðar tryggingar fyrir því að tilgangi verði ekki breytt o.s.frv.

Á bls. 11 í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um samanburð á hlutafélagsforminu og formi sjálfseignarstofnunar.

Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við samanburð á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi þótti hlutafélagsformið henta betur enda gildir um hlutafélög ítarleg og skýr löggjöf, leikreglur eru þar allar vel þekktar og fjöldi fordæma til um hvernig leysa beri úr einstökum málum.“

Eru þetta rök eða er þetta fullyrðing? Ég hallast að því síðarnefnda vegna þess að í textanum segir: „Við samanburð á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi þótti hlutafélagsformið henta betur …“ Hvar er þessi samanburður? Hann liggur ekki fyrir í þeim gögnum sem ég hef skoðað. Það er enginn samanburður fyrir hendi, ekki nokkur. Þegar svona veigamiklar ákvarðanir eru teknar eiga að liggja fyrir skjöl, ítarleg skjöl, samanburður og skýrslur sérfræðinga. Ég fullyrði að þegar menn setja á stofn sjálfseignarstofnun eru sjálfseignarstofnuninni settar samþykktir, reglur, tilgangur og þar fram eftir götunum. Það er ekkert vandamál að setja vandaðar, skýrar samþykktir, tilgangslýsingu, leikreglur fyrir RÚV sem sjálfseignarstofnun með öllum þeim kostum sem fylgja hlutafélagsforminu en sneiða af alla þá galla sem fylgja því, því að þeir eru líka til.

Rökin hér eða rökleysan eða fullyrðingin er fyrirsláttur. Það ber allt að sama brunni, það verður að hugsa málið algjörlega upp á nýtt og fresta því fram á næsta þing. Einkavædd einokun hefur ekki skilað almenningi í landinu nokkrum sköpuðum hlut. Hefur almenningur haft hag af einkavæðingu bankanna sem voru í ríkiseign? (Gripið fram í: Sumir.) Sumir. Almenningur? (Gripið fram í: Nei, ekki almenningur.) Ég sagði almenningur. Það eru einstaklingar, (Gripið fram í: Einstaklingar, já.) eigendur þeirra sem græða milljarða. Höfum við séð lækkun á kostnaði bankanna frá því að þeir voru einkavæddir? Höfum við séð vaxtakjörin lækka? Höfum við séð þess stað að við höfum notið milljarðagróða þeirra á hverju ári? Nei. Það eru tekin þvílík gjöld af manni að maður þorir ekki að ganga sömu megin götu og dyrnar á bankanum eru vegna ótta við að það fari ekki eitthvað inn á kreditkortið.

Það er enginn hagur af því. Sér einhver haginn af samkeppni á tryggingamarkaði, olíumarkaði, að vísu er undantekning þar? Nei, almenningur hefur ekki séð það í buddunum sínum, ekki í fjárhag heimilanna. Vextir hafa ekki lækkað og þjónustugjöldin hafa rokið upp. Þetta skilur hver maður. Af yfirdrættinum er okurlán. Nei, það hefur ekki komið króna í budduna hjá almenningi og verið er að skerða þjónustu við almenning með því að samkeppnis- og hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Það er því verið að skerða réttindi almennings. Meira að segja var ein samkeppnisaðgerðin sú að einkavæða jarðarfarir og við það hækkuðu þær um mörg hundruð prósent.

Frú forseti. Hvernig sem á málin er litið er frumvarpið atlaga að þeim þjóðargersemum sem ég gerði að umtalsefni. Það er atlaga að höfundum sem gerðu þær, bjuggu þær þjóðargersemar til. Það er atlaga að starfsmönnum Ríkisútvarpsins og það er atlaga að lýðræðislegum réttindum þeirra sem hlusta, horfa og eiga skipti við Ríkisútvarpið.