132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:57]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Frú forseti. Aðkoma mín að þessu máli er með frekar litlum fyrirvara og undirbúningur kannski ekki eins og vert væri og ég vonast til að fá annað tækifæri til að gera betur síðar þar sem þess má vænta að ræða mín verði að einhverju leyti sundurlaus og styttri en annars hefði verið.

Ég hef ekki tekið þátt í þessum umræðum öðruvísi en sem áhorfandi úti í bæ. Ég hef fylgst með fréttum, ég hef skoðað og hlýtt á ræður þingmanna, ég hef lesið frumvarpið yfir og nefndarálit. En ég vil segja að af því sem ég hef kynnt mér um málið finnst mér einna athyglisverðust sú ræða sem hér var flutt núna rétt áðan af hv. þm. Atla Gíslasyni. Ég hvet menn til að kynna sér þau sjónarmið sem þar komu fram og þær upplýsingar um þau gífurlegu verðmæti, bæði hlutlæg verðmæti og önnur sem liggja í Ríkisútvarpinu, verðmæti í starfsmönnum og í efni sem þar er nánast ómetanlegt. Ég held að rétt sé að gefa því fullan gaum, auk þess sem hv. þm. talar af mikilli reynslu og þekkingu um réttindi starfsmanna. Að sjálfsögðu hafa menn miklar áhyggjur af þeim við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru í þessum efnum því að við höfum séð hvernig farið hefur bæði hvað snertir lífeyrisréttindi og biðlaunarétt starfsmanna í ýmsum þáttum einkavæðingar að undanförnu og þau spor hræða.

Ég fagna því engu að síður að fá að segja nokkur orð um RÚV og fjalla aðeins um málefni þess vegna þess að ég hef kynnst starfsemi Ríkisútvarpsins af eigin raun, fyrst sem fréttaritari um langt árabil bæði á landsbyggðinni og hér á höfuðborgarsvæðinu, ég hef annast þar dagskrárgerð, lestur í útvarp, þýðingar o.fl. Ég hef fylgst með svæðisstöðvum, m.a. vestur á Ísafirði, fylgst með hvernig hún varð til í mjög slæmri aðstöðu til þeirrar sem nú er sem er að mörgu leyti til fyrirmyndar, og ég hef starfað á þeirri stöð. Þar að auki tók ég þátt í að stofna hollvinasamtök um Ríkisútvarpið og hef fylgst með ágætu starfi þeirra.

Það er algjörlega nauðsynlegt að mikilvægi Ríkisútvarpsins verði virt og tryggt að það skuli hafa varanlegan sess sem menningarstofnun og almannaútvarp í eigu allra landsmanna. Því ber samkvæmt lögum núna að gæta óhlutdrægni, vernda skoðanafrelsi og halda uppi fjölbreyttum skoðunum. Ríkisútvarpið er eina útvarpsstöðin sem hefur þetta lögbundna hlutverk og því er brýnt að standa vörð um það.

Það er skylda Ríkisútvarpsins að efla íslenska dagskrárgerð og því þarf að vera kleift að framleiða miklu meira innlent efni en nú er gert. Meginhlutverk þess á að vera metnaðarfull innlend dagskrárgerð og að standa vörð um tunguna og menninguna. Það er forsenda þess að við viljum hafa ríkisrekinn fjölmiðil og það er þjónusta sem íslensk þjóðin vill og sem hún á rétt á.

Það er nauðsynlegt að Ríkisútvarpinu verði tryggðir traustir tekjustofnar til að geta rækt menningarlegt hlutverk sitt myndarlega. Ég tel heppilegast að gera það af fjárlögum. Það eru ýmsir annmarkar á því afnotagjaldi sem nú er en nefskatturinn er engu betri og ég kem nokkuð að því síðar.

Í löndunum allt í kringum okkur er rekið öflugt ríkisútvarp og þykir sjálfsagt og eðlilegt. Ég hef hvergi heyrt gild rök fyrir því að breyta ætti RÚV í hlutafélag. Margir hafa sagt að það mundi liðka fyrir ýmsum þáttum í rekstrinum ef RÚV yrði hlutafélag í eigu ríkisins. Þá gæti stofnunin brugðist fljótt við samkeppni og verið skjót til ákvarðana. Á móti má spyrja: Hvað er því til fyrirstöðu að stofnun sé breytt þannig að hún bregðist skjótt við samkeppni þótt hún sé ekki gerð að hlutafélagi? Hv. síðasti ræðumaður kom einmitt inn á gildi t.d. sjálfseignarstofnunar í þessu sambandi og á hvern hátt slík stofnun gæti gegnt sama hlutverki að mestöllu leyti og hlutafélag.

Í hlutafélagi felst hins vegar að til greina kæmi að selja það hlutafélag. Það eina sem til þarf er að fella burt eina málsgrein úr lögunum. Það er óhætt að segja að fordæmin séu slæm ef um er að ræða hlutafélag í eigu ríkisins því að það er og hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða þau. Það sýna dæmin. Ég held að minnsta vísbending í þá átt væri beinlínis hættuleg fyrir íslenska menningu, fyrir öryggi landsmanna, sem ekki má gleyma, og ekki síst fyrir aðra fjölmiðla með tilliti til þeirrar samþjöppunar sem á sér stað í þeim geira.

Ég vil í þessu sambandi minna á tillögu til þingsályktunar sem Frjálslyndi flokkurinn hefur flutt oftar en einu sinni og eftir því sem ég best veit síðast á 130. löggjafarþingi 2003–2004. Allir þingmenn Frjálslynda flokksins fluttu þessa tillögu til þingsályktunar, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Nefndin ljúki störfum innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.“

Þessi leið held ég að væri miklu vænlegri eins og komið hefur fram hjá mörgum þingmönnum, að vanda til verksins, gefa sér tíma til að vinna það frekar en setja fram frumvarp sem er gert eins og það sem hér liggur frammi og er mjög umdeilt, ekki bara á Alþingi heldur víðs vegar í þjóðfélaginu eins og umsagnir, blaðaskrif og almenn umræða í þjóðfélaginu hefur sýnt fram á.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni var ýmislegt rætt um gildi útvarpsins. Meðal annars var talað um að það væri, eins og ég gat um áðan, viðurkennd stoð íslenskrar tungu og menningar. Það ætti að gefa almenningi kost á fræðslu, menningarefni og ýmsu öðru sem er ekki svo vinsælt að aðrir ljósvakamiðlar sjái sér hag í að flytja það. Slíkur fjölmiðill sem á að flytja efni sem er nauðsynlegt en e.t.v. ekki til þess fallið að auka á sölu á að vera í þjóðareign og hann á að vera fjármagnaður af almenningi úr ríkissjóði. Þess vegna var það álit flutningsmanna að Ríkisútvarpið ætti að halda áfram að vera til sem sjálfstæð og óháð stofnun í þjóðareign. Í þessari greinargerð var gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið yrði fjármagnað að fullu á fjárlögum hvert ár, t.d. innan ramma áætlunar eða þjónustusamnings til þriggja til fimm ára í senn.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er margt fróðlegra hluta annarra en ég vil líka minna á frumvarp til laga sem hefur verið flutt oftar en einu sinni um textun. Ég er ekki farinn að sjá að hlutafélag yrði líklegra til þess að kosta til textun sjónvarpsefnis sem er mjög brýnt, sem er líka mjög dýrt og hefur verið vanrækt. Það er auðvelt að sjá það með samanburði við aðrar þjóðir. Það vantar mjög mikið á að textun sé hér svipuð og gerist sæmilegt í nágrannalöndum og þá er ég ekki að miða við BBC sem er fremst í flokki eftir því sem ég best veit í því.

Ég hef rekið mig á að það er almennur misskilningur að textun sjónvarpsefnis sé fyrst og fremst ætluð mjög heyrnarskertu fólki en svo er alls ekki. Hún er ætlað okkur hinum sem erum heyrnarskert að einhverju marki en e.t.v. ekki álitin fötluð vegna þess. Hins vegar er það svo að þegar fólk sem svo er ástatt fyrir horfir á sjónvarp og hlustar á það sem þar fer fram á það mjög erfitt með að greina á milli einstakra hljóða og þess vegna eru þeir sem þurfa á þessu efni að halda geysilega margir og miklu fleiri en almennt er álitið. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu vegna þess að þetta er eitt af fjölmörgu sem þetta hlutafélag um RÚV þarf að taka á og kosta. Þetta er eitt af fjölmörgu sem er ekki til þess fallið að gefa beinan arð hverju sinni en er afar brýnt og nauðsynlegt.

Mér finnst eftir því sem ég hef séð að vinnubrögð við undirbúning þessa frumvarps og málatilbúnað séu frekar hroðvirknisleg. Málefni Ríkisútvarpsins hefðu átt að vera til umræðu með öðrum fjölmiðlamálum sem bíða úrlausnar hérna en ekki rekið áfram eins og raunin hefur orðið á. Ég tel að þau lög sem nú verða sett, verði þetta frumvarp samþykkt sem ég vona svo sannarlega að verði ekki að óbreyttu, muni veikja stöðu og starfsemi Ríkisútvarpsins og herða pólitískt kverkatak ráðandi stjórnvalda hverju sinni á þessari stofnun. Það er ekki þetta sem Ríkisútvarpið hefði helst þurft á að halda því að pólitísk völd þar og áhrif hafa verið mikil um langa hríð.

Samtökin Hollvinir Ríkisútvarpsins sendu Alþingi umsögn sína um fyrirhugað frumvarp og ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vísa til þess. Þar er m.a. lögð áhersla á eftirfarandi punkta, með leyfi forseta:

Í fyrsta lagi andstöðu við hlutafélagavæðingu RÚV sem er grundvallarstefna samtakanna enda öll einkavæðingaráform þjóðarfjölmiðilsins fráleit.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að RÚV sé alveg óháð framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma.

Í þriðja lagi metnaðarfull innlend dagskrárgerð á að vera meginhlutverk RÚV þar sem höfuðáhersla er á mál, menntun og menningu. Opinber útvarpsrekstur á að vera vörður lýðræðis með þjóðinni sem bægir frá sérhagsmunafullri flokkspólitík.

Það er stefna hollvinasamtakanna í fjórða lagi að æðsta stjórn RÚV verði skipuð fulltrúum fjölmennra hópa samfélagsins svo víðfeðmar skoðanir fái notið sín og víðtæk þekking. Það væri líka viðfangsefni slíkrar yfirstjórnar að tryggja sjálfstæði almannaútvarpsins. Með nýju lögunum verður hlutafélagið RÚV ,,losað undan ýmsum lögum og reglum sem gilda sérstaklega um ríkisrekstur svo sem varðandi fjárreiður, upplýsingagjöf, starfsmannahald og lántökuheimildir.“ Hér er beint vísað í texta. Hollvinasamtökin telja mjög miður að þjóðin eigi ekki aðgang að öllum upplýsingum varðandi þau atriði sem hér voru nefnd og vilja að stjórnsýsla sé gagnsæ.

Hollvinasamtök RÚV telja að þjóðarútvarp eigi að mestu leyti að vera rekið fyrir skattpeninga og ekkert til sparað að efla stofnunina til að vera sverð og skjöldur íslenskrar menningar og lýðræðis.

Meðan ég þekkti til málefna Framsóknarflokksins var mjög eindregin afstaða þess flokks um að standa vörð um Ríkisútvarpið. Sérstaklega var mikil andstaða við allar hugmyndir um einkavæðingu þess, um hlutafélagavæðingu og annað sem því viðkom. Svo ég fór að velta fyrir mér: Hvað hefur gerst? Hefur eitthvað breyst hjá Framsóknarflokknum?

Ég hef reyndar alls ekki fylgst mikið með ályktunum hans eða störfum, ég skal alveg viðurkenna það. Til að hressa upp á þetta fletti ég upp ályktunum flokksþinga til þess að sjá hvort eitthvað væri breytt. Á vef Framsóknarflokksins eru þrjár ályktanir. Þær eru ekki frá því í gamla daga þegar ég þekkti til mála hans en þær eru frá 2001, 2003 og 2005. Það er greinilegt að á þessum tíma hefur flokkurinn af einhverjum ástæðum breytt verulega um áherslur og sveigst til þeirra áherslna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft í þessum efnum: einkavæðingar, hlutafjárvæðingar eða hvað það er, ég veit það ekki.

Í ályktunum frá flokksþingi 2001 stendur, með leyfi forseta:

„Að löggjöf um Ríkisútvarpið verði endurskoðuð með það að markmiði að tryggja hlutleysi þess og sjálfstæði og að stofnuninni verði áfram gert kleift að rækja mikilvægt menningarhlutverk sitt.“

Síðan segir:

„Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag en í tengslum við endurskoðun löggjafar um Ríkisútvarpið verði kannað hvort rétt sé að breyta því í sjálfseignarstofnun. Fjárhagur Ríkisútvarpsins verði efldur til að tryggja enn betur útsendingarstyrkleika þess á landsbyggðinni.“

Þarna sýnist mér vera markmið í ályktun flokksins 2001 sem er nokkuð í anda þess sem var í Framsóknarflokknum lengst af og ég þekkti í þessum efnum og var samþykkur þá.

Síðan kemur flokksþing 2003. Þá er aðeins farið að breyta um áherslur.

Ef ég má vitna í það, með leyfi virðulegs forseta:

„Ríkisútvarpið skal stunda sjónvarps- og útvarpsrekstur í þágu þjóðarinnar á breiðum grundvelli.“ Gott og vel.

Síðan segir:

„Breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun sem verði laus við viðskiptaleg, stjórnmálaleg eða önnur hagsmunatengsl.“

Þarna er mjög greinilega farið að breyta um áherslur frá 2001.

Hér reyndar segir fleira:

„Sjálfseignarstofnunin RÚV yrði þannig sjálfstæður miðill, sem rekinn yrði á jafnréttisgrundvelli við önnur fjölmiðlafyrirtæki. Tryggja skal rekstur RÚV með þjónustusamningi við ríkið.“

Í ályktun flokksþings síðasta árs, 2005, segir:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði.“

Þarna virðist vera búið að sleppa ýmsu sem ályktað var um 2001. Það kann vel að vera að einhver rök séu fyrir því en það kemur ekki fram á þessari heimasíðu og ég þekki ekki hver þau kunna að vera.

Eins og ég gat um í upphafi mun ég ekki fjalla efnislega um frumvarpið að þessu sinni en það eru rétt einstök atriði sem ég vildi þó víkja að. Það er spurning um hvernig eigi að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins. Með því að setja Ríkisútvarpið á fjárlög er verið að taka af sameiginlegum tekjum okkar allra til þess að kosta þennan nauðsynlega öryggis- og menningarþátt í íslenska þjóðlífinu. Hins vegar velta menn mikið vöngum yfir því hvort ætti að hafa nefskatt. Margir hafa verið því fylgjandi og m.a. hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar lýst því yfir í viðtali að nefskattur sé miklu heppilegri fjármögnunarleið fyrir Ríkisútvarpið en afnotagjald.

Aftur á móti hefur ríkisskattstjóri sett fram miklar efasemdir um kosti nefskattsins. Hann segir m.a. að kostur nefskatts sé helst sá að einfalt sé að leggja hann á og auðvelt að fylgjast með skattgreiðslu. Aftur á móti telur hann til ókosta nefskattsins að hann taki ekki tillit til greiðslugetu og sé íþyngjandi fyrir tekjulága, þ.e. tekjulágir greiða hærra hlutfall tekna sinna í skattinn en þeir sem meira hafa handa á milli. Hann talar um nefskatt af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir en talað er um í upphafi 13.500 kr. á þá sem greiða sem innheimtur verði frá 1. jan. 2008.

Gert er ráð fyrir því að tekjulágir séu undanþegnir nefskattinum. Hvaða tekjur er verið að tala um: Er verið að tala um launatekjur? Er verið að tala um fjármagnstekjur? Er ekki alltaf dálítið erfitt að ákveða tekjur og ráðstöfunarfé hvers aðila? Það hefur sýnt sig vera stundum annmörkum háð. Síðan segir að þeir sem eru orðnir 70 ára eða eldri séu undanþegnir.

Úr umsögn ríkisskattstjóra segir, með leyfi forseta:

„Frítekjumörkum fyrir fast krónugjald fylgja ákveðin vandamál vegna þeirra sem eru sitt hvorum megin næst mörkunum, sem vakið getur spurningu um jafnræði. Sama á við þegar litið er til mismunandi skattlagningar hjóna eftir því hvort annað eða bæði eru ofan markanna. Þá eru skattfrelsismörk samkvæmt frumvarpinu með þeim annmarka að eingöngu er miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur og þess háttar en ekki fjármagnstekjur. Allstór hópur manna hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og yrði samkvæmt þessu undanþeginn gjaldinu.“

Sömuleiðis er gert ráð fyrir að tekjuskatturinn leggist ekki bara á einstaklinga heldur líka á lögaðila þannig að fyrirtæki mundu borga þetta gjald óháð tekjum þeirra eða hagnaði.

Virðulegur forseti. Það er svo vissulega tilefni til þess að fjalla um mjög margt fleira í þessu. Ég tek undir það sem margir hafa sagt í dag að þetta frumvarp er mjög viðsjárvert. Ég óttast mjög að verði það að lögum séu þar afskaplega slæmir hlutir að gerast.

Ég vil leyfa mér að ljúka þessari ræðu með niðurlagi í umsögn Hollvinasamtaka RÚV, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þjóðarútvarp okkar er almannaútvarp sem á alls ekki að heyra til fyrirtækjarekstrar með kröfu um hagnað og arðsemi. Ríkisútvarpið er menningarstofnun sem gegnir mikilvægu hlutverki í almannaþjónustu. Við höfum þegar einkastöðvar sem reknar eru með arðsemina eina að leiðarljósi og fjölmiðlum í einkaeigu er hvorki skylt að gæta hlutleysis né sinna menningar- og öryggishlutverki. Þá kröfu getum við þó gert óhikað til þjóðarútvarps í almannaeigu.“