132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:22]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Talsmenn þess í þinginu að selja Ríkisútvarpið voru þrír eða fjórir, ég held að þeir séu aðeins tveir núna. Það er því ljóst að ekki er stjórnarmeirihluti fyrir því og eins og ég sagði verður Ríkisútvarpið ekki selt að óbreyttri ríkisstjórn. En það hefur aftur og aftur verið komið inn á það í umræðunni, ekki endilega kannski hv. þm. Pétur Bjarnason, að með því að Framsóknarflokkurinn hafi lagt aðrar áherslur í ályktunum sínum núna, í gjörbreyttu fjölmiðlaumhverfi, en hann gerði fyrir einhverjum árum síðan hafi orðið einhver stefnubreyting og afstöðubreyting innan flokksins til þess að Ríkisútvarpið eigi að vera í þjóðareigu.

Hið rétta er að til skamms tíma töldu menn að Ríkisútvarpið yrði helst varið sem þjóðareign með því að það væri sjálfseignarstofnun frekar en hlutafélag. Nú hafa menn hins vegar sett inn í þetta frumvarp jákvætt og ótvírætt ákvæði um að það verði ekki selt og eigi að vera áfram þjóðareign. Framsóknarmenn sjá að það tryggir heldur ekkert að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareign að hafa það sem sjálfseignarstofnun, því að eins og hv. þm. Pétur Bjarnason benti réttilega á væri hægt, eftir að þetta frumvarp verður að lögum, að selja það með því að breyta einu ákvæði. Það væri líka hægt þó svo að lög mundu kveða á um það núna að Ríkisútvarpið væri sjálfseignarstofnun. Það er líka hægt að breyta þeim lögum. Tryggingin er því engin í rekstrarforminu sem ákveðin verður.

Meginmálið er að það er ekki stjórnarmeirihluti fyrir að selja það. Ég get heldur ekki ímyndað mér, eins og menn hafa talað í stjórnarandstöðunni, að þótt breyting verði á ríkisstjórnarmeirihluta einhvern tíma í framtíðinni að Ríkisútvarpið verði selt þá. Svo mikill samhugur finnst mér vera í þinginu um að Ríkisútvarpið verði áfram sameign þjóðarinnar að ekki sé hægt að sjá það neins staðar í náinni framtíð að annar háttur verði hafður á.