132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi skipt um skoðun varðandi nefskattinn. Því er til að svara að þegar við á annað borð höfum komist að þeirri niðurstöðu, meiri hluti þjóðarinnar og meiri hluti þingheims, að rétt sé að halda úti ríkisútvarpi verður einhvern veginn að fjármagna það félag. Þá er spurning hvaða kostir eru í stöðunni.

Í fyrsta lagi að innheimta afnotagjald. Það vill þannig til að sú leið er bæði kostnaðarsöm og líka haldin þeim annmörkum að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, telur að slík innheimta standist ekki þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist samkvæmt EES-samningnum.

Þá er önnur leið sem er að setja þetta félag á fjárlög. Ég verð að segja að það er leið sem mér hugnast ekki. Ég tel að þriðja leiðin, nefskattur, sé þó skömminni skárri. Ég átta mig hins vegar á því og hef sagt að auðvitað er það með nefskattinn eins og aðra skatta, honum fylgja gallar eins og honum fylgja kostir.

En ég er þeirrar skoðunar að nefskatturinn sé skásti kosturinn af þeim sem í boði eru. Ég bendi hv. þingmanni á að sú leið sem lögð er til í frumvarpinu til fjármögnunar á félaginu mun leiða til þess að útgjöld hinnar venjulegu fjölskyldu, þorra fjölskyldna í landinu, munu lækka. Það tel ég skref í rétta átt.

Þess vegna tel ég að skynsamlegra sé að fara þá leið heldur en margar aðrar. Ég styð að álögur á heimilin í landinu lækki og (Forseti hringir.) minnki og ég geri ráð fyrir að hv. 1. þm. Reykv. n. (Forseti hringir.) sé sammála mér um það.