132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:22]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að það hefur verið krafa okkar í stjórnarandstöðunni að málið komi aftur inn til nefndar. Það er rétt að fagna því að stjórnarliðar skuli hafa stigið það skref til sátta að taka málið aftur inn og um leið að sjálfsögðu að viðurkenna að hugsanlega sé hægt að bæta málið eitthvað í nefndarstarfinu.

Ég trúi því ekki að menn ætli að fara að sitja fundi með engum tilgangi. Það er alveg ljóst að við höfum óskað eftir fleiri gestum en ég geri ekki ráð fyrir að það sé mikill fjöldi. Meginkrafa okkur hefur einmitt verið umræða í nefndinni til að leita betri leiða.

En ég vek athygli á — ég hef aðeins eina mínútu sem er nú orðin hálfskert núna — að hv. þm. Mörður Árnason á hér eftir ræðu. Ég geri ráð fyrir að megininntak þeirrar ræðu verði einmitt útlistun á þeirri kröfu okkar að málið verði tekið aftur upp í nefndinni.

Hv. þingmaður tilkynnti í ræðu sinni hér áðan, sem var mjög athyglisvert, að enginn ágreiningur væri innan stjórnarflokkanna í málinu. Það er fróðleg yfirlýsing frá einum af sölumönnum Sjálfstæðisflokksins gagnvart Ríkisútvarpinu sem hefur ítrekað það hér að (Forseti hringir.) hann sé áfram sölumaður og (Forseti hringir.) tekur væntanlega undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta frumvarp sé skref í þá átt.