132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:00]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason talaði hér stutt mál en kjarnyrt og náði nokkuð vel að leggja fram kjarnann í afstöðu Samfylkingarinnar til þessa máls. Það gleður mig sannarlega að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, er nærstaddur og hlýðir á mál mitt. Ég varð þess áskynja þegar hv. þingmaður hélt sína ræðu hér áðan, þó að stutt væri, að hann hafði ekki skilið ákveðin lykilatriði. Hv. þingmaður, sem ber ábyrgð á málinu hér í gegnum þingið, kaus að svara ekki nokkrum af þeim spurningum sem ég varpaði fram í ræðu sem miðað við aðstæður málsins var tiltölulega stutt af minni hálfu þó að hún hafi tekið fjóra tíma. Ég átti von á því að hv. þingmaður mundi svara spurningunum.

Það er óhjákvæmilegt að rifja það hér upp að í þessari umræðu hefur varla sést til hæstv. menntamálaráðherra. Þingmenn Samfylkingarinnar óskuðu sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra mundi svara tilteknum spurningum sem fyrir hana voru lagðar og ekki var hægt að ætlast til þess að hv. formaður menntamálanefndar svaraði. Sérstaklega vil ég rifja það upp að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir gerði hlé á máli sínu þegar hæstv. forseti, Rannveig Guðmundsdóttir, sat í forsetastóli og óskaði eftir því að fá svör frá ráðherra við tilteknum spurningum, svör við spurningum sem okkur í Samfylkingunni leikur hugur á að fá svör við. Þau boð voru borin af hálfu hæstv. ráðherra til þingmannsins í gegnum hæstv. forseta að ráðherra mundi sjá til þess að spurningarnar yrðu allar teknar niður og þeim yrði svarað. Þetta voru spurningar sem ég vildi gjarnan fá svör við, m.a. með hvaða hætti skilgreining á almannaútvarpi kæmi fram í þjónustusamningi eða eftir atvikum samþykktum félagsins. Ekki var hægt að skilja þau skilaboð sem hæstv. forseti gaf á annan hátt en þann að ráðherra ætlaði að svara. Og nú spyr ég þann ágæta þingmann sem gegnir hlutverki forseta: Er það þá svo að hér ljúki 2. umr. án þess að hæstv. menntamálaráðherra svari einni einustu spurningu af þeim sem fyrir hana eru lagðar þrátt fyrir að hún hafi sent þinginu skilaboð um að svörin bærust? Var þá hæstv. menntamálaráðherra að skjóta sér undan umræðunni og gefa þinginu röng boð? Það er hægt að komast að þeirri niðurstöðu.

Á öllum mínum ferli hef ég einungis einu sinni óskað eftir því að ráðherra yrði færður í sal til þess að hlýða á spurningar. Ég ætla ekki að fara að raska ró hæstv. ráðherra og fá hana flutta hingað með valdi í salinn til þess að hlusta á ákveðnar spurningar og reyna að knýja fram viðhorf sem augljóst er að komu ekki vegna þess að hæstv. ráðherra hefur klárlega ekki hugsað þetta mál til þrautar. Þá ályktun dreg ég af því að hafa hlustað á hverja einustu ræðu hér í þinginu og á andsvör hennar og ræður tvær í 1. umr.

Hv. formaður menntamálanefndar gerði því skóna í ræðu sinni áðan að forustumenn Samfylkingarinnar gætu ljáð máls á því að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Ég hafna því alfarið. Ég skildi t.d. hv. þingmann þannig að hv. þm. Mörður Árnason, sem hér talaði áðan, hefði einhverju sinni orðað það með þeim hætti. Mig langar þess vegna að lesa hér örstutt, með leyfi forseta, eina setningu upp úr ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar.

Þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið mundi sóma sér vel sem sjálfseignarstofnun eins og Viðskiptaháskólinn á Bifröst er og Háskólinn í Reykjavík var til skamms tíma.“

Frú forseti. Má ég bæta við þessa upptalningu. Það er ein merk skólastofnun sem með nokkrum hætti kemur við sögu okkar þings, a.m.k. þingheims þess sem hér situr í dag. Formaður menntamálanefndar, sem hér hefur svo sköruglega talað oft, gekk menntaveginn í gegnum Verslunarskóla Íslands og komst vel að manni út úr þeim skóla (Gripið fram í.) eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Hvert er rekstrarformið á þeim skóla, þessum framverði einkaframtaksins? Hann er sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Með öðrum orðum, það form sem við höfum verið að mæla hér fyrir, frú forseti.

Og til að það liggi alveg skýrt fyrir hver afstaða forustu Samfylkingarinnar er rifja ég það hér upp að við 1. umr. talaði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir hönd Samfylkingarinnar og lýsti stefnu hennar með ákaflega skorinorðum hætti. Grunnkjarninn í máli hennar var sá að það væri skoðun Samfylkingarinnar að fyrirtæki sem væru í opinberri eigu, sem ekki væru rekin fyrir sjálfsaflafé, ættu ekki að vera á hlutafélagsforminu.

Af því að hv. þm. Jónína Bjartmarz er hér inni, fulltrúi Framsóknarflokksins, þess flokks sem varla hefur opnað munninn í þessari umræðu, þá er rétt að rifja það upp að kjarninn í máli formanns Samfylkingarinnar eftir að hún hafði lokið sinni röksemdafærslu var eftirfarandi.

Eftir að hafa rakið efnislegar forsendur málsins sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir því, eins og Framsóknarflokkurinn gerði til skamms tíma, að þetta væri sjálfseignarfyrirkomulag.“

Það liggur því algjörlega skýrt fyrir hver stefna Samfylkingarinnar er í þessum efnum. Það þýðir hins vegar ekki að Samfylkingin sé á móti hlutafélögum. Það kom glöggt fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar hér áðan.

Við skiptum ríkisfyrirtækjum í tvennt. Það eru annars vegar þau fyrirtæki sem eru rekin að uppistöðu til fyrir skattpeninga almennings í landinu og hins vegar þau sem eru rekin fyrir sjálfsaflafé. Ríkisútvarpið tilheyrir fyrri fyrirtækjaflokknum. Þau fyrirtæki er best að reka á formi sjálfseignarfélags. Það er hefð fyrir því formi, það hefur reynst vel. Fjölmargar þjónustustofnanir eru þannig reknar og sækja rekstrarfé sitt beint í ríkissjóð. Hins vegar eru svo þau félög sem ríkið á og eru rekin að mestu leyti fyrir sjálfsaflafé. Við höfum sagt það alveg skýrt og skorinort að við erum ekki á móti því að slík félög verði gerð að hlutafélögum.

Það er alveg rétt, sem komið hefur fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, sem er lögfræðingur að mennt og þekkir hlutafélagaformið ábyggilega betur en margir, hefur lært um það, að það hefur mikla kosti í för með sér, það er sveigjanlegt. Það gefur kost á hröðum ákvörðunum og skútan verður nokkuð hraðskreið á því formi. En herra minn trúr. Höfum við ekki séð undir forustu nýs útvarpsstjóra að fá fyrirtæki á markaði hreyfa sig jafnhratt og Ríkisútvarpið, sem í þessari umræðu hefur fengið þá einkunn að vera stöðnuð stofnun, úrelt og hægfara.

Sáum við hvað gerðist þegar nýr útvarpsstjóri var sestur við stjórnvöl og samkeppnisaðilinn, 365 miðlar, hirtu af honum stjörnu úr vinsælasta þættinum? Ekki var liðinn sólarhringur þegar útvarpsstjóri var búinn að ráða til sín ekki bara einn heldur tvo úr hópi hinna bestu hjá samkeppnismiðlunum. Og hvað er það þá sem þarf að breyta í fyrirkomulagi og formi á rekstri Ríkisútvarpsins? Ég er búinn að spyrja um þetta formann nefndarinnar og hæstv. menntamálaráðherra en engin svör hafa borist. Ég kemst næst kjarna málsins með því að draga þá ályktun að það þurfi að breyta lögunum þannig að þeir þrír ráðherraráðnu framkvæmdastjórar sem nú er að finna innan stofnunarinnar verði lagðir niður og til þess sé verið að troða þessum lögum í gegn. Það er til þess að búa til alvaldan útvarpsstjóra, útvarpsstjóra sem hefur skýra sýn og hefur þá möguleika og svigrúm til þess að fylgja þeirri stefnu án þess að það verði valdskörun, sem sannarlega má segja miðað við núverandi fyrirkomulag laganna að sé fyrir hendi. Það er auðvitað umhendis að hugsa sér öflugan útvarpsstjóra með skýra framtíðarsýn sem hann hefur mótað í samráði við sína stjórn og hins vegar þrjá framkvæmdastjóra sem sækja umboð sitt ekki til stjórnarinnar heldur til ráðherra. Það er alveg klárt að þar er hætta á ákveðnu tvíveldi og ég er sammála gagnrýnendunum úr Sjálfstæðisflokknum um það. Það er hins vegar hægt að breyta því einfaldlega með lagabreytingum hér, leggja þær stöður niður. Þá erum við komin með það straumlínulagaða form sem þarf.

Ég hef oft í þessum umræðum sagt við formann nefndarinnar að það sé hægt að finna sáttaflöt í þessu máli, það er hægt að finna sameiginlega víðfeðma snertifleti. Það er auðvitað eitt af því sem á að ræða. Ég lít hins vegar svo á að stjórnarliðið reki málið af engri sannfæringu, af engri ástríðu og af engum þrótti. Menn hafa einfaldlega enga sérstaka trú á þessum málflutningi. Meira að segja hinn ágæti formaður nefndarinnar hefur sjálfur sagt í ræðustól að það form sem við höfum talað fyrir sé í sjálfu sér ágætt en það henti ekki að hans mati nægilega vel en það hentar þó. Og þar hefur hann sótt rök og orð beint í frumvarpið vegna þess að í greinargerðinni kemur alveg skýrt fram að sjálfseignarformið kemur vel til greina, það fellur að úrskurði ESA og það gefur ákveðna möguleika sem hlutafélögin ráða yfir, sem er sveigjan, mýktin og lipurðin. Það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að nota sömu uppistöðu og við höfum forskrift að í hlutafélagalögunum til þess að búa til sjálfseignarfélag um þetta.

Hvers vegna ætti nú hv. þm. Sigurður Kári eða hæstv. ráðherra að hlusta á slíkt af minni hálfu? Vegna þess að þau hafa bæði sagt, og þó sérstaklega ráðherra, að það sé ekkert sem sé jafnbrýnt og að sátt ríki um Ríkisútvarpið. Það sé stofnun sem hafi mikilvægu menningarhlutverki að gegna sem sé viðkvæmt og sem menn hafi kannski ekki gengið nægilega vel um. Þess vegna skipti svo miklu máli að skapa um hana breiða samstöðu og breiða sátt. Sá möguleiki er fyrir hendi. Hann er sá að menn taki höndum saman og stofni um hana sjálfseignarfélag. Ég geri mér alveg grein fyrir því að lögin gömlu um sjálfseignarfélögin frá 1998 eða 1999 duga ekki fyrir þá stofnun sem Ríkisútvarpið er. Það þyrfti að gera sérlög um sjálfseignarstofnunina Ríkisútvarpið. En það væri hægt að gera það og búa til þá straumlínulöguðu byggingu sem þarf til þess að hægt sé að stýra stofnuninni og hjálpa henni til þess að hreyfa sig hratt í nýju samkeppnisumhverfi. Sá er sáttaflöturinn í þessu máli. En það er enginn vilji, finnst mér, til þess að hlusta á það. Hæstv. ráðherra nennir ekki einu sinni að koma í umræðuna, hún vill ekki rökræða þetta, þetta er einhvers konar trúaratriði hjá henni. Þó hefur það komið fram, sérstaklega hér í 1. umr., í rökræðum við hv. þm. Mörð Árnason, að hún hafði einfaldlega ekki hinn rétta skilning eða þekkingu á hlutafélagalögunum þegar hún var að reyna að andmæla hv. þm. Merði Árnasyni sem rakti lögin, sérstaklega það sem tengist samþykktinni. Það er því alveg klárt að ef vilji er fyrir hendi væri hægt að gera þetta.

Hvers vegna ættu menn að fara sér hægar í þessu máli og kanna þennan sáttaflöt? Ekki bara af því að ríkisstofnunin sem um ræðir er viðkvæm og skapa þarf frið og sátt um hana, heldur líka vegna þess að menn eru hér að fara með ólög. Ég segi það hreint út að það eru blekkingar þegar verið er að halda því fram að það hlutafélag sem hér er verið að stofna sé sjálfstætt hlutafélag sem sé að eðli til eins og önnur hlutafélög á markaði. Það er margt sem mælir gegn því. Það er í fyrsta lagi, eins og félagi hv. þingmanns, Pétur H. Blöndal, hefur sagt, hlutafélag sem er beinlínis með stjórn sem er knúin upp af aðila utan frá, verður aldrei sjálfstætt hlutafélag. Það er ekki tíu aura virði, sagði hv. þm. Pétur Blöndal hér í þingræðu, að halda slíku fram, og ég er honum algjörlega sammála um það.

Það er annað, og nú vildi ég að hv. þm. Sigurður K. Kristjánsson mundi hlýða á mitt mál. Ég þarf að koma til hans ákveðnum spurningum og ákveðnum upplýsingum. En ég get þá beðið aðeins með það, frú forseti, og tekið þá fyrir atriði sem ég tel að sé algjörlega nauðsynlegt að leggja þunga áherslu á vegna þess að það er meginkjarninn í þeirri nálgun sem við í Samfylkingunni höfum haft.

Ég sagði hérna áðan að við skiptum ríkisfyrirtækjum í tvennt, þau sem eru rekin fyrir peninga almennings, skattféð, og hin sem eru rekin fyrir fé sem þau afla sjálf með rekstri sínum. Við sem höfum í áranna rás, og fyrirrennarar okkar, staðið fyrir því að setja ramma um hvernig samfélagið eigi að vera rekið, við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því og í vaxandi mæli eftir því sem tíminn hefur liðið, að það er nauðsynlegt að setja ákveðið regluverk til þess að tryggja að hið opinbera fé sem liggur í þessum opinberu stofnunum sé nýtt með sem bestum hætti. Á almennum markaði þar sem hlutafélög eru ríkjandi eru það hluthafarnir sem leika þetta hlutverk. Féð ver sig alltaf sjálft vegna þess að það hefur hirði, þ.e. hluthafarnir sem hafa lagt fé í fyrirtækið með því að kaupa sér hlutabréf, þeir eru varðhundarnir og varðgæsluliðið sem sér um að ekki sé misfarið með peningana. Því er hins vegar ekki til að dreifa í opinberum fyrirtækjum sem eðli máls samkvæmt skiptast ekki í smáa hluti sem einstakir hluthafar úti í samfélaginu eiga og verja.

Þess vegna þarf með einhverjum hætti, frú forseti, að tryggja algjörlega að við slíkar aðstæður sé farið vel með féð og stjórnendunum sé veitt aðhald og það er ekki hægt að gera nema með einu móti. Með því að það sé sú kvöð á stjórnendunum að veita upplýsingar og það sé sá réttur á eigendunum, fólkinu í samfélaginu að geta krafist þeirra. Upplýsingalögin. Um þetta vorum við sammála, jafnaðarmenn og Sjálfstæðisflokkurinn, þegar við sátum saman í ríkisstjórn og það var þá sem þetta regluverk var sett. Það voru settar reglur um upplýsingaskyldu. Reyndar ekki einungis á sviði fyrirtækjarekstrar, heldur á ýmsum sértækum málasviðum eins og umhverfismálum.

Hv. þm. Mörður Árnason gerði hér góða grein fyrir þeim viðhorfum sem frjálslyndir sjálfstæðismenn hafa fylgt gagnvart þessari tegund rekstrar í gegnum árin. Hann las upp úr greinum sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins Þorsteinn Pálsson hefur skrifað þar sem hann leggur fram með ákaflega skörpum hætti þetta nákvæmlega sama sjónarmið sem við sem hér höfum talað í dag og formaður Samfylkingarinnar, sem ég vísaði til áðan, höfum lagt sem grunninn að nálgun okkar þegar við veltum rekstrarforminu fyrir okkur .

Ég ætla ekki að eyða tíma í að fara djúpt í það sem Þorsteinn Pálsson sagði. En þó er nauðsynlegt að undirstrika eitt. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri bara ein leið fær til þess, eins og hann orðaði það, að koma í veg fyrir misnotkun á peningum skattborgaranna sem liggja í opinberum stofnunum. Það væru upplýsingalög. Hann sagði ekki að það væri ein af nokkrum leiðum. Hann sagði að það væri einungis ein leið. Það er þess vegna sem við höfum sagt að það sé grundvallaratriði af okkar hálfu að samþykkja ekki hlutafélag um stofnun af þessu tagi. Það hafa engin rök komið fram fyrir því.

En sú spurning sem ég vil leggja fyrir hv. þingmann með vísun í þá menntun sem hann hefur heyjað sér og ég gerði að umræðuefni hér fyrr í máli mínu, spurningin varðar einmitt hlutafélagið Ríkisútvarpið hf. og fjárreiður þess. Það hefur komið fram í þessari umræðu að eitt sem ekki hefur fengist botn í er hver eiginfjárstaða Ríkisútvarpsins sé. Það er orðið að almennu umræðuefni úti í samfélaginu. Fjölmiðlar hafa skrifað um það og þeir vita það ekki. Það veit það enginn. Formaður menntamálanefndar veit það t.d. ekki. Hæstv. ráðherra veit það ekki heldur. Ég veit það ekki.

Það er þess vegna sem hefði verið eðlilegt að fresta samþykkt þessa máls. En þá er komið að kjarna málsins. Eina sem við vitum varðandi þetta er að eiginfjárstaða Ríkisútvarpsins er neikvæð. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson heldur því fram að hér sé um að ræða venjulegt hlutafélag og þetta verði sjálfstætt hlutafélag. Ég ætla hins vegar að biðja hv. þm. Sigurð Kára að benda mér á lagastoð fyrir að hægt sé að skrá hlutafélag þar sem ekki liggur fyrir vitneskja um eiginfjárstöðuna. Ég ætla að halda því fram að það sé ekki hægt. Það er þess vegna sem það er algjörlega út í hött að halda því fram að þetta sé venjulegt hlutafélag sem leiki eftir almennum hlutafélagareglum. Það er enginn lögfræðingur með virðingu fyrir sjálfum sér, a.m.k. ekki úr Verslunarskólanum sem mundi leyfa sér að reyna að skrá slíkt hlutafélag. Það er enginn endurskoðandi með virðingu fyrir sjálfum sér, né heldur þeir sem enga virðingu hafa fyrir sjálfum sér sem mundu leggja til að slíkt hlutafélag væri skráð því það er ekki hægt. Það, meðal annarra þátta er ástæðan fyrir því að formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að undirbúningur þessa frumvarps væri í skötulíki. Ástæðan fyrir að hann notaði það orð var einmitt í beinu samhengi og beinu framhaldi af umræðu af hans um að það væri ekki ljóst hver fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins væri. Þetta verður að liggja alveg kristaltært fyrir.

Loksins gerist það, frú forseti, að hér rekur framsóknarmenn og konur inn á fjörur Alþingis. Það er nauðsynlegt þess vegna líka að leggja áherslu á að framsóknarmenn voru plataðir í þessu máli. Þeir voru plataðir af Sjálfstæðisflokknum og beittir blekkingum. Eins og menn muna var það svo þegar hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, Magnús Stefánsson og Dagný Jónsdóttir voru öll saman á landsfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins fyrir þremur, fjórum árum, var ein samþykkt gerð sem upp úr stóð og vakti fréttaefni. Hún var sú að Ríkisútvarpið yrði aldrei gert að hlutafélagi. Það lá alveg ljóst fyrir. Þeir vildu hafa það sem sameignarfélag. Síðan kom úrskurður í fyrra, þegar það frumvarp hafði verið lagt fram, frá ESA. Á grundvelli þess úrskurðar, sem haldið var í pukursleynd mánuðum saman og hvorki fjölmiðlar né Alþingi fengu að sjá, hvað þá menntamálanefnd, hv. formaður menntamálanefndar á þó hrós skilið fyrir að hann reyndi sitt til að rífa það álit út, var álitið túlkað með þeim hætti að það væri bara ein leið fær og hún væri sú að fara hlutafélagsleiðina.

Það var þess vegna sem forustumenn úr Framsóknarflokknum komu fram og útskýrðu afstöðubreytingu sína gagnvart háeffuninni, með því að það væri til að fella form Ríkisútvarpsins að úrskurði ESA. Hvað gerist svo þegar maður les úrskurð ESA? Þá kemur í ljós að hann snýst aðallega um tvennt. Í fyrsta lagi fjárhagslegan aðskilnað og kínamúra á millum samkeppnisrekstrarins annars vegar og hins vegar rekstrar almannaútvarpsins. Hvað sést í frumvarpinu? Það er gert. Hins vegar að ríkið mætti ekki vera með ótakmarkaða ábyrgð.

Þegar maður skoðar úrskurðinn mætti allt eins segja að hann hefði verið sniðinn til að kalla fram frumvarp um að Ríkisútvarpið ætti að vera rekið á formi sjálfseignarfélags. Vegna þess að sjálfseignarfélag tryggir að ríkið hefur ekki ótakmarkaða ábyrgð. Slíkt félag hefur einungis takmarkaða ábyrgð. Það kemur fram í þessu frumvarpi, sem væri hægt að setja í hvaða frumvarp sem er um Ríkisútvarpið, að þar er gerður aðskilnaður á millum samkeppnisrekstrarins og síðan rekstrar almannaútvarpsins. Þannig að það er bara rangt sem sjálfstæðismenn sögðu við þjóðina og við framsóknarmenn að það væri krafa frá ESA að þetta yrði gert að hlutafélagi. Að sjálfsögðu er ekkert slíkt að finna. Þegar maður les síðan frumvarpið kemur í ljós að þar segir að sjálfseignarformið mundi duga en frumvarpshöfundar telja að hlutafélagaatrennan henti betur.

Þá er nú rétt að upplýsa hv. þingmenn Framsóknarflokksins um hvernig formaður þeirra hugsar í þessum efnum. Hann hefur flutt hér, gamall endurskoðandi, gjörþekkir þessi mál, fínar ræður tvisvar sinnum í vetur þar sem hann hefur skýrt muninn á hlutafélagi annars vegar og sjálfseignarfélagi hins vegar. Hann hefur skýrt af hverju og við hvaða kringumstæður menn velji sjálfseignarfélagið og við hvaða kringumstæður þeir velji hlutafélagið. Formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, lýsti því mjög skelegglega að í sumum tilvikum veldu menn hlutafélagaformið vegna þess að það gæfi færi á að fá nýtt hlutafélag inn í félagið. Með öðrum orðum að selja hluta úr því. (Gripið fram í.) Nýtt hlutafélag. Þannig að það væri leið til að fá nýja eigendur að slíku fyrirtæki.

Gæti það verið frú forseti, að þetta sé einmitt ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn fór með blekkingum gagnvart Framsóknarflokknum, plataði hann upp úr skónum og knúði Framsóknarflokkinn til að breyta um afstöðu? Kynni það að vera vegna þess að það eru trúarbrögð innan Sjálfstæðisflokksins að einkavæða Ríkisútvarpið og þetta er skref í áttina að því, frú forseti? Ég sé að loksins bregður upp glampa skilnings í augum hins ágæta þingmanns hv. Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Loksins er að renna upp fyrir honum að hann hefur verið plataður upp úr skónum.

Það er önnur meginástæða þess að Samfylkingin er tortryggin á þetta frumvarp og hún er óttaslegin gagnvart því. Það liggur fyrir að það er eindreginn söluvilji gagnvart Ríkisútvarpinu hjá fjölmörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, og ekki bara þingflokksins. Ég mundi giska á að meira en helmingur hins skipulagða hluta Sjálfstæðisflokksins vildi selja Ríkisútvarpið. Í þeim hópi er t.d. hv. þingmaður, sem nú kemur í gættina, Guðlaugur Þór Þórðarson, og hefur verið frá því hann hóf störf í Sjálfstæðisflokknum. Allur yngri hluti Sjálfstæðisflokksins, Samband ungra sjálfstæðismanna og Heimdallur sem er fjölmennasti hluti flokksins, er þeirrar skoðunar að það eigi ekki bara að háeffa Ríkisútvarpið heldur eigi að selja það. Það eru þrír þingmenn sem hafa lagt fram frumvarp um það og þetta er ástæðan fyrir því að ég er hræddur við að stíga þetta skref. Þess vegna vil ég frekar fara sjálfseignarleiðina vegna þess að það þýðir að það er ekki hægt að fara í þá partasölu á Ríkisútvarpinu sem ýmsir þingmenn innan Sjálfstæðisflokksins hafa viljað, sem Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti formlega árið 1995 eftir sjö ára baráttu ýmissa dyggra frjálshyggjumanna innan flokksins en þá var það samþykkt að selja ætti Rás 2. Nú kemur það fram skýrt í þessu frumvarpi að sú kvöð liggur einungis á Ríkisútvarpinu hf. að hafa eina hljóðvarpsrás. Eina sjónvarpsrás. Það þýðir einfaldlega að Ríkisútvarpið þarf ekkert að reka Rás 2.

Þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar spurðu hæstv. menntamálaráðherra að því hér í umræðum fyrr í meðferð málsins hvort þetta þýddi t.d. að Alþingi gæti, ef það vildi, komið í veg fyrir að Rás 2 yrði seld ef það væri fyrirhugað. Þá sagði hæstv. menntamálaráðherra að það yrði aldrei hennar mál og það yrði aldrei mál þingsins. Ef þessi lög yrðu samþykkt væri það mál tveggja aðila, útvarpsstjóra og stjórnar Ríkisútvarpsins. Það þýðir einfaldlega að þetta frumvarp sem hér er verið að samþykkja er óútfylltur tékki og þeir sem geta fyllt hann út eru útvarpsstjóri og stjórn Ríkisútvarpsins. Þeir geta selt Rás 2 ef þeim býður svo við að horfa, ef Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram þessu 20 ára fjársvelti sem hann hefur haldið stofnuninni í, þá er hugsanlegt að það verði skrefið sem menn neyðast til að stíga. Hvernig ætla menn þá að bregðast við? Jú. Þá koma menn, m.a. formaður þingflokks Framsóknarflokksins og segir: Við höfum hald í 1. greininni þar sem sagt er að það megi ekki selja Ríkisútvarpið hf. Hvaða máli skiptir það?

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason og Magnús Stefánsson hafa báðir áralanga reynslu af störfum í fjárlaganefnd og hvað er það sem einkennir fjárlagafrumvarpið umfram öll önnur frumvörp sem við samþykkjum hér á hinu háa Alþingi? Það eru hinar frægu „þrátt fyrir“ greinar. Það eru greinar sem segja að þrátt fyrir lög sem búið er að setja sé hægt að gera hitt og þetta. Það þýðir einfaldlega, eins og rakst upp úr hæstv. ráðherra þegar talsmaður Samfylkingarinnar gekk eftir því hér í umræðum, að ef menn vilja samt sem áður þrátt fyrir þessi lög selja hluta af Ríkisútvarpinu eða Ríkisútvarpið allt, er það hægt með samþykkt Alþingis.

Það eru þessi atriði sem gera það að verkum að ég mun aldrei samþykkja þetta frumvarp. Ég tel að hér sé verið að brjóta grundvallarreglur í rekstri opinberra stofnana og hv. formaður fjárlaganefndar á að gera sér grein fyrir því, alveg eins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins gerir. Hérna er hluti af Sjálfstæðisflokknum að ná fram áralöngu markmiði sínu, að stíga skref sem opnar á möguleika á að selja hluta af Ríkisútvarpinu. Þetta er það sem einstakir þingmenn hafa barist fyrir árum saman.

Til að kóróna þetta koma nú menn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og berjast fyrir því eins og ljón, að við á þessu háa Alþingi samþykkjum t.d. hluti eins og nefskatt. Það getur verið að sumir telji að það sé allt í lagi. En það var sá hv. þingmaður sem færði snjöllust rök gegn því í fyrra, ásamt félögum sínum Birgi Ármannssyni og Pétri H. Blöndal, að það væri röng leið. Hún væri út takti við skattalögin og hún leiddi til ójafnaðar. Og svo koma þessir sömu menn núna og gera allt sem þeir geta til að samþykkja það sem þeir sögðu í fyrra að væri vitlaust og rangt. Hvað er að svona fólki? Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur kannski svarað mér því á eftir.