132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[18:32]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

Eins og kunnugt er tók stækkun Evrópska efnahagssvæðisins gildi 1. maí 2004 er 10 ríki gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til viðbótar þeim sem fyrir voru. Gildistöku reglna samningsins um frjálsa för launafólks var frestað um tvö ár að því er varðar ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands og taka því formlega gildi 1. maí nk. Eldri aðildarríkjum samningsins, þar með talið Ísland, er þó heimilt að taka einhliða ákvörðun um að fresta gildistöku þessara reglna allt fram til ársins 2009.

Að höfðu samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins og að teknu tilliti til aðstæðna á íslenskum vinnumarkaði er lagt til með frumvarpi þessu að ríkisborgurum framangreindra ríkja verði heimilt að koma hingað til lands í atvinnuleit og ráða sig til starfa hér á landi án sérstakra atvinnuleyfa. Nokkur þensla hefur ríkt á íslenskum vinnumarkaði á síðustu missirum og hefur dregið verulega úr atvinnuleysi sem mældist einungis 1,5% í mars sl. Hafa íslensk fyrirtæki því leitað út fyrir landsteina eftir vinnuafli.

Stefna stjórnvalda við útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa hefur verið að veita ríkisborgurum nýju aðildarríkjanna að samningum um Evrópska efnahagssvæðið forgang umfram ríkisborgara frá ríkjum utan svæðisins. Með þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til er forgangur ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins undirstrikaður enn frekar. Ég vil ítreka það hér að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að skapa skilyrði fyrir fulla atvinnu, bætt lífskjör og bætt starfsskilyrði á svæðinu. Það telst því felast í skuldbindingum einstakra stjórnvalda samkvæmt samningnum að þau veiti launamönnum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan svæðisins að því er varðar aðgengi að innlendum vinnumarkaði. Mun þeirri stefnu áfram verða framfylgt við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga og atvinnurekendur í samræmi við það hvattir til að leita eftir vinnuafli á sameiginlegum innri markaði.

Reynsla undanfarinna tveggja ára hefur sýnt að nokkur hreyfanleiki er með ríkisborgurum þessara ríkja enda þótt fráleitt sé að tala um að flóðgáttir opnist í þessu sambandi. Ég vil undirstrika það hér. Full ástæða er til að fylgjast grannt með þróun mála og að mínu mati er það forsenda þess að við veitum EES-samningnum gildi að því er varðar frjálst flæði vinnuafls frá öðrum aðildarríkjum samningsins. Því er gert ráð fyrir að atvinnurekendur tilkynni til Vinnumálastofnunar um ráðningu ríkisborgara frá þessum ríkjum þar sem fram komi nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang ásamt nafni útlendingsins, kennitölu og aðsetri hans hér á landi. Gert er ráð fyrir að ráðningarsamningur fylgi tilkynningunni þar sem útlendingum eru tryggð laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Þetta er að mínu mati afar þýðingarmikið atriði sem við verðum að fylgja vel eftir. Miðað er við að tilkynningin berist stofnuninni innan 10 virkra daga frá ráðningu. Skal Vinnumálastofnun halda skrá yfir þá útlendinga sem koma frá framangreindum ríkjum til að starfa hér á landi. Það skal þó taka fram að þessi skráning kemur ekki í veg fyrir að umræddir ríkisborgarar þurfi að sækja um EES-dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Tilgangur þessarar tilkynningarskyldu atvinnurekenda er að fylgjast með framvindu mála svo unnt sé að hafa yfirsýn yfir þá sem koma hingað til landsins, m.a. til að gæta þess að þeir njóti þeirra réttinda sem gilda á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun afhendi stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem umræddir ríkisborgarar starfa afrit af ráðningarsamningi útlendingsins óski stéttarfélagið eftir því, enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi.

Virðulegi forseti. Með þessu er verið að undirstrika mikilvægi þess að innkoma erlendra fyrirtækja og erlends starfsfólks raski ekki því kerfi sem viðgengist hefur hér á landi á vinnumarkaðnum. Er því áhersla lögð á að sú viðtekna venja að aðilar vinnumarkaðarins fylgist með að kjarasamningar séu haldnir hér á landi verði viðhaldið en ástæða þótti til að styrkja það tímabundið með þessum hætti. Aðildarsamningur EES gerir jafnframt ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum á aðlögunartímanum. Er hér einnig átt við að stéttarfélag geti óskað eftir ráðningarsamningum ótilgreindra útlendinga er starfa hjá tilteknum atvinnurekanda. Er þá miðað við að einhverjar vísbendingar séu fyrir hendi sem gefa tilefni til gruns um að ákvæði kjarasamninga séu virt að vettugi hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda.

Ég vil því nota þetta tækifæri og höfða til ábyrgðar fyrirtækjanna hér á landi til að virða gildandi kjarasamninga við ákvörðun launa og annarra starfskjara íslenskra jafnt sem erlendra starfsmanna sinna. Við þurfum öll að standa vörð um sameiginlega hagsmuni okkar og tryggja efnahagslegt og félagslegt öryggi þeirra sem hér dvelja og starfa. Framangreindri skráningarskyldu atvinnurekenda er jafnframt ætlað að leiða til þess að unnt sé að meta áhrif stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins sem og að tryggja að unnt sé að bregðast í tíma við aðstæðum sem kunna að leiða til alvarlegrar röskunar á íslenskum vinnumarkaði. Er jafnframt litið til þess að slík skráning geri stjórnvöldum kleift að veita þessum útlendingum nauðsynlegar upplýsingar um lög og reglur sem gilda um störf á íslenskum vinnumarkaði.

Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði veitt heimild til að leggja dagsektir á atvinnurekendur láti þeir hjá líða að skrá framangreinda ríkisborgara sem starfa hjá þeim. Mér þykir mikilvægt að stofnunin geti gripið til slíkra aðgerða til að tryggja að umrædd tilkynningarskylda verði virt.

Í viðræðum við Alþýðusamband Íslands og samtök aðila atvinnulífsins var enn fremur samkomulag um að ég feli starfshópi þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins munu eiga sæti að fara yfir málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er brýnt verkefni og áætlað er að því ljúki 1. nóvember nk. Markmiðið með yfirferðinni er að fara yfir stöðu útlendinga sem starfa hér á landi, þar á meðal þeirra sem starfa á grundvelli þjónusturéttarins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en mikilvægt er að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem mótast hafa á íslenskum vinnumarkaði, þar á meðal að ráðningarsamningar starfsmanna beint við vinnuveitendur sína verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Meðal annars verði skoðað hvort ástæða sé til að styrkja það vinnumarkaðskerfi sem fyrir er til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Er starfshópnum ætlað að meta hvort ástæða sé til að setja ítarlegri reglur um tilkynningarskyldu þjónustuveitanda sem kemur með starfsmenn sína hingað til lands. Enn fremur er starfshópnum ætlað að koma fram með tillögur til félagsmálaráðherra um hvernig bæta megi framkvæmdina innan stjórnkerfisins í því skyni að tryggja að útlendingar dvelji og starfi hér á landi með lögmætum hætti og að áreiðanlegar upplýsingar um útlendinga sem eru að störfum hér á landi verði til. Jafnframt að kanna hvaða leiðir séu færar til að auka upplýsingagjöf og aðstoð við erlent starfsfólk sem starfar hér.

Ég vil áður en ég lýk máli mínu að sinni undirstrika það að ég tel að við Íslendingar höfum full tækifæri til að vinna vel úr því tæki sem felst í þeim hluta EES-samningsins sem varðar frjálsa för. Við höfum langa og góða reynslu af þessu vinnuafli á Íslandi, ekki síst Pólverjum sem hafa verið og eru enn fjölmennasti einstaki hópur fólks frá öðrum löndum hér á landi. Rannsóknir sýna að mjög hátt hlutfall útlendinga sem eru hér á landi eru í vinnu og hlutfallið að þessu leyti hærra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er jákvætt og þannig viljum við hafa það áfram.

Við Íslendingar búum við mjög hátt hlutfall vinnandi fólks, hvort sem um er að ræða konur, karlmenn eða þá sem komnir eru af léttasta skeiði. Í öllum þeim flokkum erum við mjög há í alþjóðlegum samanburði og er það vel. Við eigum að sjálfsögðu að ganga út frá því að hið sama gildi um þá sem hingað koma erlendis frá.

Ég vil jafnframt nefna það að ætli fólk af erlendu bergi brotið að vinna hér á landi til lengri tíma og festa rætur þá læri það tungumálið okkar. Íbúum af EES-svæðinu hefur ekki verið gert skylt að stunda íslenskunám hingað til og svo verður ekki heldur nú eftir 1. maí. Við þurfum að fara sérstaklega yfir það hvernig við getum með jákvæðum hætti hvatt fólk til íslenskunáms og ég tel að nýskipað innflytjendaráð sé mjög góður vettvangur til að fjalla um það mál. Innflytjendaráð er nú á fullri ferð við að forgangsraða verkefnum og undirbúa stefnumótun varðandi aðlögun innflytjenda og þar er að mörgu að hyggja. Markmið þessa starfs er að sjálfsögðu að allir séu fullir þátttakendur í samfélagi okkar hvers lenskir sem þeir eru. Á sínum tíma komu forfeður okkar hingað frá öðrum löndum og á tímabilum hafa Íslendingar sótt til annarra landa, svo sem Vesturheims og jafnvel Ástralíu í atvinnuleit.

Við getum sjálf nýtt okkur EES-samninginn og ákvæði hans um frjálsa för og það eigum við að sjálfsögðu að gera. Við eigum að nýta okkur kosti samningsins að þessu leyti sem öðru og við eigum líka að nýta okkur kosti erlends vinnuafls.

Það hefur verið tekið eftir því á alþjóðavettvangi hve vel við höfum tekið á móti flóttamönnum og hve vel þeir hafa aðlagast í samfélaginu um allt land og víða um land, svo sem á Vestfjörðum. Þar hefur fólk af erlendu bergi brotið svo sannarlega auðgað samfélagið. Þannig á það líka að vera.

Ég læt máli mínu lokið að sinni en ég hef tækifæri til að fjalla nánar um þetta mál síðar. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.