132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[18:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram um hve seint þetta mál er fram komið í þinginu. Ég geri mér grein fyrir að viðræður hafa farið fram milli félagsmálaráðuneytisins eða fulltrúa þess og aðila á vinnumarkaði þannig að menn hafa nokkuð að byggja á þegar þeir senda frá sér greinargerðir nú í næstu viku. En jafnvel þær umræður fóru allt of seint af stað. Því það var fyrirséð að 1. maí yrði nákvæmlega hinn 1. maí. Þá yrðum við að vera búin að ganga frá þessum málum þannig að allt var fyrirséð í þessum efnum.

Það er einnig fyrirséð að vinnumarkaðurinn mun opnast á hinu Evrópska efnahagssvæði að fullu leyti, einnig gagnvart þeim ríkjum sem fengu aðild að Evrópusambandinu á árinu 2004. Þannig að spurningin er ekki hvort, heldur hvernig eigi að opna vinnumarkaðinn. Líka hvenær, en fyrst og fremst hvernig. Um hvað snýst málið? Málið snýst um að tryggja að lágmarkskjör sem samið er um í íslenskum kjarasamningum haldi.

Hæstv. ráðherra vísar í nefnd sem sett verður á laggirnar til að véla um hvernig staðið skuli að málum. En ég vil minna hæstv. ráðherra á að fyrir liggur frumvarp í þinginu frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem unnið var af núverandi þingmanni, Atla Gíslasyni, hv. varaþingmanni, sem geirneglir að svo verði. Sem geirneglir að íslenskir samningar haldi. Við erum frábrugðin ýmsum öðrum ríkjum, þar á meðal hinum Norðurlöndunum, a.m.k. Svíþjóð sem stendur nú í mikilli deilu, eða sænsk verkalýðshreyfing, um hvort virða beri sænska kjarasamninga á sænskum vinnumarkaði, svokallað Vaxholmmál, að við erum með í íslenskum lögum ákvæði þess efnis að íslenskir kjarasamningar eigi að halda. Það sem hins vegar hefur skort á er eftirlitið. Við höfum gagnrýnt það í frumvörpum og lögum sem ríkisstjórnin fékk samþykkt hér á Alþingi hve skammt er gengið í þessum efnum. Eftirlitsvaldið er fengið Vinnumálastofnun en trúnaðarmönnum verkalýðsfélaga er ekki tryggt það aðgengi sem okkar frumvarp gerir ráð fyrir.

Á þetta vil ég aðeins minna, hæstv. forseti. En ítreka að á þessu stigi ætla ég ekki að hafa mörg orð eða þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um þetta mál. Við leggjum áherslu á að því sé flýtt. Það komi strax til umsagnar hjá aðilum á vinnumarkaði þannig að þingnefndin geti farið yfir málið með gögn í höndum frá þessum aðilum í næstu viku því eitt er víst að við verðum að komast að niðurstöðu og klára málið áður en 1. maí rennur upp.