132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[19:11]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem orðið hefur um þetta mál. Sú gagnrýni hefur verið áberandi að málið sé seint fram komið og spurt hvers vegna gripið sé til þessara aðgerða núna.

Ég vil segja í því sambandi að þegar ég kom að þessu máli á dögunum, rétt eftir að ég tók við embætti félagsmálaráðherra, þá var sú staða uppi að reiknað var með að aðgengi að íslenskum vinnumarkaði opnaðist 1. maí. Aðilar vinnumarkaðarins litu málið nokkuð ólíkum augum. Ég byrjaði á því að heimsækja þá til að fá fram sjónarmið þeirra í málinu. Framvindan varð einfaldlega sú að samkomulag náðist um þetta með heildarsamtökum atvinnulífsins og ASÍ og aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ segir í viðtali við Morgunblaðið þann 5. apríl að því megi segja að ekki sé eðlismunur á þeim leiðum sem ASÍ hefur lagt áherslu á og þeim sem farnar eru í frumvarpinu. Síðan segir hann að þeir hafi samþykkt áhersluatriði sem samtökin ætli að fylgja eftir í starfshópnum sem félagsmálaráðherra muni skipa.

Það tók tíma að ná samkomulagi um þetta en ég taldi mikilvægt að hin stóru samtök atvinnulífsins gætu liðið þetta frumvarp. Ég tel að það sé nægur tími til að ræða það, 2. umr. um frumvarpið er eftir og ég mun geyma mér frekari rökræður til þeirrar umræðu, en ég heyri að það gætir nokkurrar óþolinmæði í þinginu um að senda málið til 2. umr. (Gripið fram í.) Hins vegar vil ég náttúrlega svara þeim spurningum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fyrir mig.

Ég er búinn að svara þeirri meginspurningu hvers vegna málið er seint fram komið. Það var vegna þess að það tók tíma að ná samkomulagi um það. Hún spyr um úttekt á málinu. Ég tel að það sé eitt meginatriðið í þessu frumvarpi að gert er ráð fyrir starfshópi sem fylgist með áhrifum þess, ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði í frumvarpinu. Síðan á sá starfshópur að fylgjast með því hvaða áhrif opnunin hefur. Það er meginatriði í þessu frumvarpi líka og meginatriði þess að um það náðist samkomulag að leggja það fram svona. Hvað rekur á eftir því að falla frá þeirri aðlögun sem við höfum haft? Við erum með verulegt erlent vinnuafl á vinnumarkaðnum hér. Við höfum þurft á erlendu vinnuafli að halda. Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og höfum skyldur þar og þess vegna höfum við ákveðið að opna með þessum hætti. Það er mjög áríðandi að menn hafi það í huga að hér er verið að opna með skráningu og með öryggisventli um að farið verði eftir kjarasamningum hér á landi.