132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[19:17]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka að samkomulag náðist við framlagningu frumvarpsins við hin stóru samtök atvinnulífisins, það liggur fyrir. Það er einfaldlega þannig að ég tel að þessi aðferð sé ásættanleg. ASÍ og Samtök atvinnulífsins töldu þessa aðferð vera ásættanlega, þess vegna legg ég frumvarpið fram. Mér finnst þetta vera ásættanlegt og er því ekki fylgjandi því að fara þá leið sem hv. þingmaður nefnir. (Gripið fram í: Af hverju gerðirðu það ekki fyrr?)

Það er nú svo að frumvarpið var tilbúið öllu fyrr og hefði getað farið á dagskrá á Alþingi og ég var búinn að biðja um það, en ég ætla ekki að ræða um það í sjálfu sér. Ég tel að tími gefist til að ræða frumvarpið en ég tel að þessi aðferð sé ásættanleg.

Spurt var um innflytjendaráð, hvað líði stefnumótun þess. Fyrir liggur skýrsla frá innflytjendaráði um hvað að þeirra mati á að hafa forgang í málefnum innflytjenda og í ráðuneytinu er verið að vinna að þeim málum. Ég hef lýst því yfir að það er áherslumál í ráðuneytinu að fara yfir málefni innflytjenda, eins og ég lýsti í framsöguræðu minni, ég kom inn á það. Ég ætla ekki að hafa í rauninni fleiri orð um það að sinni. En ég tel að þingið hafi ráðrúm til að fjalla um þetta mál (Forseti hringir.) og vona að það nái fram að ganga.