132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Grunnnet Símans.

[15:05]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til forsætisráðherra vegna þeirrar umræðu sem nú fer fram um sölu á grunnneti Símans til Orkuveitu Reykjavíkur. Ég held að þær umræður um söluna komi mörgum spánskt fyrir sjónir og margir minnist nú þeirrar umræðu sem fram fór á þingi þegar stjórnarandstaðan lagði það til að grunnnetið yrði skilið undan Símanum og ekki selt með honum heldur annaðhvort haldið í sjálfstæðu félagi á vegum ríkisins eða lagt inn í félag um öflugt grunnnet fyrir alla landsmenn. Þá voru færð fram rök gegn þessu af hálfu bæði einkavæðingarnefndar og ráðherra í ríkisstjórninni.

Rökin voru aðallega þríþætt: Í fyrsta lagi væri þetta tæknilega varla gerlegt. Þetta væri flókin og kostnaðarsöm aðgerð. Nú er komið á daginn að sú er alls ekki raunin. Þetta virðist vera sáraeinföld aðgerð, þ.e. að skilja grunnnetið frá öðrum þjónustuþáttum Símans.

Í öðru lagi var því haldið fram að þetta stangaðist á við lög ESB um samkeppni í rekstri grunnneta. Ef sú væri raunin tel ég að menn væru ekki að ræða það í alvöru milli Símans og Orkuveitu Reykjavíkur að reka þessi tvö öflugu grunnnet saman í einu öflugu fyrirtæki.

Í þriðja lagi var því haldið fram að grunnnetið væri svo afgerandi hluti af Símanum að mun lægra verð fengist fyrir Símann en ella ef þetta væri selt. Nú er komið á daginn að grunnnet Símans er innan við þriðjungur af söluverðmæti Símans því það er verið að tala um verð sem er a.m.k. innan við 20 milljarða kr., þannig að það virðist sem ekkert af því standist sem sagt var fyrir nokkrum mánuðum og þá hlýtur sú spurning að vakna: Beittu menn vísvitandi blekkingu til þess eins að ná sér í fleiri krónur eða var eitthvað annað sem lá því til grundvallar eða trúði ráðherra og ráðherrar í ríkisstjórninni sjálfir því sem þeir voru að segja á þessum tíma?