132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Grunnnet Símans.

[15:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Nú þekki ég ekki þær viðræður sem eiga sér stað milli Símans og Orkuveitu Reykjavíkur. En það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að því er varðar sölu Símans á sínum tíma að allir þeir sem leitað var til, ráðgjafar og aðrir sem komu að þessu máli, mæltu eindregið með því að fyrirtækið yrði selt í heilu lagi og til þess stæðu margvíslegar orsakir. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér.

Hitt er svo annað mál að það er eðlilegt að þau fyrirtæki sem eru á þessum markaði leiti leiða til hagræðingar og eins og hv. þingmaður veit miklu betur en ég hefur Orkuveita Reykjavíkur lagt öflugt ljósleiðaranet á nokkuð stóru svæði suðvestanlands. Það liggur líka fyrir að net Símans er miklu eldra og úreltara og eins og ég skil málið er að um ræða að koma í veg fyrir að byggt verði upp nýtísku tvöfalt net á öllu þessu svæði með tilheyrandi kostnaði.

Nú veit ég ekki hvort þessir samningar takast eða út á hvað þeir nákvæmlega ganga. En ég tel eðlilegt að þeir fari fram og það geti orðið af einhverju slíku ef það kemur ekki niður á samkeppni og ekki niður á þjónustu við neytendur og um það ætla ég ekkert að fullyrða. En það var samdóma álit allra sem ríkisstjórnin leitaði til á sínum tíma að það væri eðlilegt að staðið yrði að sölunni með þessum hætti og ég hef sannfæringu fyrir því að það verð sem fékkst fyrir Símann hefði aldrei fengist ef þetta hefði ekki verið gert. Og að sjálfsögðu, virðulegi hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, var það markmið ríkisstjórnarinnar að fá sem mest verð fyrir Símann og við köllum það ekki nokkrar krónur. Það skiptir milljörðum króna og ég vænti þess að hv. þingmaður sé því sammála.