132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Atvinnuástandið á Bíldudal.

[15:20]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hæstv. forsætisráðherra vill ekki ræða um atvinnumálin á Bíldudal. Ég velti fyrir mér hvort komið hafi verið við einhver kaun þar. En það þýðir ekkert að segja að hér sé verið að tala um annað mál þar sem er fiskveiðistjórnarkerfið. Það vita allir hvernig það kerfi hefur farið með sjávarbyggðirnar. Í ályktun verkalýðsfélagsins sem ég las upp áðan og vitnaði í er einmitt Bíldudalur tekinn sem dæmi, ekki sem eina dæmið heldur dæmi sem sýnir mjög glöggt og ljóslega hvernig þetta kerfi hefur verið að fara og er að fara með sjávarbyggðir landsins. Þetta er bara staðreynd, hæstv. forsætisráðherra. Atvinnumálin verða órjúfanlega tengd því á þessum stöðum sem ekki geta snúið sér annað en til sjávarins, eins og þau hafa gert um aldir, til að fá möguleika á því að framfleyta sér og sínum.