132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Samráðshópur um atvinnumál á Suðurnesjum.

[15:33]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er gott að heyra afdráttarlaus svör hæstv. utanríkisráðherra um að ríkisstjórnin ætli að skipa í þennan samráðshóp og gera það núna á næstu dögum því eins og ég sagði eru liðnar tæpar fimm vikur frá því að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum skipaði fulltrúa sína í hópinn.

Ég get skilið ef upp hafa komið einhverjar hugmyndir um að það þurfi að útvíkka þennan hóp, að það hafi tekið einhvern tíma að velta því fyrir sér með hvaða hætti yrði brugðist við slíkum óskum. En ég legg á það mikla áherslu að ekki líði margir dagar í viðbót þangað til hægt verður að skipa í þennan hóp. Því hver einasta vika, hver einasti dagur sem líður, án þess að þetta samráð eigi sér stað, þýðir að við erum að missa af tækifærum til að hafa áhrif og jafnvel stýra einhverri atburðarás sem fram fer uppi á flugvelli eftir að varnarliðið er farið.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra í framhaldi af þessu hvort tekin hafi verið afstaða til að skipa að einhverju leyti á móti sveitarfélögunum í landskilanefnd sem færi þá yfir skil á mannvirkjum og jafnvel landsvæði ef til þess kæmi.