132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg.

[15:39]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hv. þingmaður hreyfir hér er mjög alvarlegt að mínu mati og ber tvímælalaust að flokka sem klárar sjóræningjaveiðar. Hér er um að ræða ólöglegar veiðar sem stundaðar eru af skipum sem er flaggað inn á svokölluð fánaríki til að geta í rauninni komist að við þessar veiðar.

Við teljum að slíkar veiðar séu ógn við karfastofninn og eins er það þannig að þegar þessi skip hafa veitt aflann koma þau oft og tíðum með hann inn á markaðinn bakdyramegin, bjóða hann á lægra verði og trufla markaðsstarfsemi okkar og leiða til verðlækkunar á fiski.

Hér er því um að ræða mjög alvarlegt mál sem hefur neikvæð áhrif á karfastofninn, sem er veikur fyrir á Reykjaneshryggnum. Við höfum verið að reyna að draga úr aflamarki okkar og það hafa þjóðir NEAFC gert sömuleiðis. Við höfum því verið að reyna að bregðast við veikari stöðu karfastofnsins með að minnka aflaheimildirnar okkar en það er til lítils á meðan þessi skip eru þarna að veiðum.

Við höfum á undanförnum árum verið að reyna að þjarma að þessum skipum og jukum áhersluna á það mjög verulega núna í haust, m.a. með því að senda út dreifibréf til 2000 aðila vítt og breitt um Evrópu til að vekja athygli á hvaða skip væri um að ræða. Við höfum lista yfir þessi skip og sá listi hefur verið sendur til stjórnvalda allra ríkja og sömuleiðis hagsmunaaðila.

Hins vegar er alveg ljóst mál að þarna hefur verið pottur brotinn. Þessi skip, að hluta til lágu í höfnum Þýskalands. Þau fóru yfir til Póllands og yfir til Litháens og þau ríki eru í gegnum Evrópusambandið aðilar að Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni. Þarna hafa þau greinilega fengið vistir sem hafa dugað þeim til þess að geta hafið þessar veiðar.

Um er að ræða mjög alvarlegt mál. Þessi skip eru mörg hver að veiðum undir fánum Georgíu og það er áformað að sjávarútvegsráðuneytið og utanríkisráðuneytið muni í samvinnu reyna að taka þessi mál upp við fánaríkin, (Forseti hringir.) allt í því skyni að reyna að draga úr þessum veiðum og stöðva þær algjörlega.