132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þetta frumvarp er margt að athuga. Í fyrsta lagi er nefskattur ekki betri kostur en afnotagjald þrátt fyrir annmarka á því. Afleitt er að ráðstafa almennum skatti í rekstur hlutafélags sem hvorki stjórnsýslulög né upplýsingalög ná til.

Í öðru lagi er hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins leið sem vísar að arðsemiskröfu í rekstri og síðar að sölu hlutafjárins enda er hlutafélagsformið fyrst og fremst til þess að færa stofnunina í söluhæfan búning. Ég vísa til þess sem fram kom í athugasemdum með frumvarpi á síðasta vetri um Ríkisútvarpið sameignarfélag, með leyfi forseta:

„Við samningu frumvarps þessa var ekki farin sú leið að stofna hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu, hér er um að ræða félag sem ekki er ráðgert að selja.“

Tilvitnun lýkur í greinargerð með stjórnarfrumvarpi um Ríkisútvarpið sameignarfélag.

Ég get ekki ímyndað mér annað í ljósi þess að þegar hefur verið lagt fram þingmannafrumvarp um sölu Ríkisútvarpsins en að sala þess verði á dagskrá innan fárra ára. Ég er andvígur því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Ég tel að Ríkisútvarpinu eigi að breyta í sameignarstofnun og tryggja rekstur þess með sérstökum þjónustusamningi við ríkið. Ég mun því greiða atkvæði gegn 1. gr. þessa frumvarps um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.