132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni sem gerði grein fyrir þeirri stöðu sem nú er komin upp af hálfu stjórnarandstöðunnar og árétta þá afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við erum algerlega andvíg frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið. Við erum andvíg því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi, við erum andvíg því að Ríkisútvarpið verði tekið undan upplýsingalögum, við erum andvíg því að Ríkisútvarpið verði tekið undan stjórnsýslulögum og að réttindi starfsfólksins verði skert eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Við höfum hins vegar lagt fram frumvarp hér á þingi sem mundi styrkja Ríkisútvarpið verulega og alla þá starfsemi sem því er ætlað að rækja. Við 2. umr. málsins komu upp nýir fletir á þessu máli og nýjar upplýsingar. Ég vísa þar sérstaklega í málatilbúnað hv. varaþingmanns Atla Gíslasonar sem varpaði ljósi á ýmsa þætti sem snúa að höfundarrétttarmálum og eignum Ríkisútvarpsins. Hann vakti máls á ýmsum spurningum sem verður að fá svör við.

Við í stjórnarandstöðunni fengum því framgengt og stjórnarmeirihlutinn tók þeirri ósk okkar að málið færi aftur til þingnefndar. Til að leggja áherslu á að við lítum svo á að þessu máli sé á engan hátt lokið með þessari atkvæðagreiðslu höfum við ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna í trausti þess að ríkisstjórnin sé að fallast á að málið fari að nýju til nefndar til að það verði skoðað þar í alvöru og reynt að leita eftir þverpólitískri sátt í þessu máli. Það er á þeirri forsendu sem við núna sitjum hjá og ég vísa aftur í málflutning hv. þm. Marðar Árnasonar þar sem hann gerði grein fyrir afstöðu okkar í stjórnarandstöðunni í þessu efni.