132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:00]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er athyglisvert við þessa tillögu meiri hluta menntamálanefndar að þar er Ríkisútvarpinu gert heimilt að geyma frumflutt dagskrárefni sitt en jafnframt er sú heimild færð úr 3. gr. frumvarpsins sem fjallar um almannaútvarpsreksturinn, að minnsta kosti að formi til, yfir í 4. gr. frumvarpsins sem fjallar um samkeppnisreksturinn.

Óljóst er hvort safnefni Ríkisútvarpsins til þessa á að hljóta sömu örlög. En þetta lýsir sérkennilegri afstöðu meiri hluta menntamálanefndar til almannaútvarps og samkeppnisrekstrar. Ef við værum ekki í svona góðu skapi gagnvart því tilboði sem eftir á svara um vinnuna hér í sumar, þá hefði ég greitt atkvæði gegn þessu. En ég mun sitja hjá í trausti þess að við náum að leiðrétta fingurbrjóta og mistök eins og þetta ber vott um í vinnu okkar í sumar.