132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[16:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp er í sjálfu sér einfalt hvað það varðar. En varðandi stöðu Sinfóníuhljómsveitarinnar sem slíkrar er náttúrlega ekki tekið á málum hennar. Hún hefur fylgt Ríkisútvarpinu, m.a. fjármögnun, rekstur og ábyrgð á þessari starfsemi hefur fylgt þar með þó svo að skornar hafi verið mjög við nögl fjárveitingar bæði til Ríkisútvarpsins og eins til Sinfóníuhljómsveitarinnar á undanförnum árum. Það hefur ekki verið Alþingi til sóma að skera svo niður fjárveitingar til þessara stofnana. Engu að síður tel ég einboðið að þetta fylgist að. Ég er náttúrlega að vona að Ríkisútvarpið sleppi við þau dapurlegu örlög að verða hlutafélagavætt og við sjáum hvað setur í þeim efnum en einboðið er að Sinfóníuhljómsveitin og málefni hennar fylgi með í þeirri umræðu og þróun þess máls á þinginu.