132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[16:59]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða hjá hv. þingmanni var fyrir margra hluta sakir nokkuð snjöll. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra útleggingar hv. þingmanns á því að málið hefði ekki verið tekið út og það væri ástæðan fyrir því að minni hlutinn skilaði ekki nefndaráliti. Það var ágætis útlegging á því og réttlæting á því að nefndarálit minni hlutans liggur ekki fyrir. En það er ágætt að heyra að hv. þingmaður ætlar ekki að gera meira úr þessu. Ég hlýt að gera athugasemd við þau orð hv. þingmanns.

Ég fór hins vegar í þetta andsvar til að svara spurningum varðandi þessa fiðlu sem alltaf er verið að tala um. Spurninguna um hver á fiðluna. Hver á fiðluna? Í mínum huga er það nokkuð skýrt. Hv. þingmaður lýsti því að Ríkisútvarpið gerði eignartilkall til fiðlunnar. Sinfóníuhljómsveitin líka, taldi sig eiga fiðluna af einhverjum siðferðislegum ástæðum. Og síðan ríkissjóður. Við skulum leggja ríkissjóð til hliðar en ég lít þannig á að það sé Ríkisútvarpið sem eigi þessa fiðlu og hef alltaf litið þannig á. Ég held að við gerum ekki ágreining um það, ég og hv. þingmaður, að það var útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins sem keypti fiðluna fyrir hönd stofnunarinnar. Ég held við getum verið sammála um það. Ég veit ekki betur en að fiðlan sé bókfærð í bókum Ríkisútvarpsins og hún verður ekkert fjarlægð þaðan á einhverjum siðferðislegum grundvelli sem starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa haldið fram.

Þeir hafa hins vegar haft umráð yfir fiðlunni, það er annað, og greitt af henni tryggingariðgjöld og annan rekstur. En það veitir Sinfóníuhljómsveitinni ekki að mínu mati eignarrumráð yfir fiðlunni. En þegar allt kemur til alls er sannleikskorn í því hjá ríkissjóði að ríkissjóður (Forseti hringir.) á þetta náttúrulega allt saman vegna þess að það verður erfitt að slíta naflastrenginn sem er milli ríkissjóðs og þessara tveggja stofnana.