132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:09]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var um margt merkilegt að hlusta á hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson lýsa upplifun sinni á fundi menntamálanefndar þegar hann telur að nefndarálit meiri hluta nefndarinnar um það frumvarp sem hér er rætt, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, hafi verið afgreitt. Ég ætla ekki að neita því að hugsanlegt er að hv. þingmaður og þess vegna meiri hlutinn allur hafi upplifað afgreiðsluna á þennan hátt. Ég verð hins vegar að taka undir lýsingu hv. þm. Marðar Árnasonar á upplifun hans og minni um það hvernig þetta gerðist í lok fundarins.

Það þarf auðvitað að taka það fram að við vorum að ræða um Ríkisútvarpsfrumvarpið á þessum fundi. Nefndarálitum var dreift, eins og hv. þingmaður nefndi, en nefndarálitið um Sinfóníuhljómsveit Íslands var aldrei rætt af þeirri einföldu ástæðu að hún kom okkur algjörlega í opna skjöldu sú tillaga sem kom fram frá formanni nefndarinnar sem var að því er okkur skildist um að afgreiða Ríkisútvarpsfrumvarpið úr nefndinni. Við upplifðum það þannig að það væri eingöngu verið að því en nú lýsir hv. þingmaður því að það hafi átt við um bæði málin.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ætíð vorum við að fjalla um þessi mál samhliða í nefndinni og það hefur trúlega valdið þessum ruglingi og þessari ólíku upplifun. (Gripið fram í.) Nei, á fyrstu fundum gerðum við það ekki, gerðum við það sér, en þegar líða tók á var þetta orðið svona eins og einn pakki, en þegar nefndarálitin komu fram litum við svo á að þetta væru tvö mál og töldum þess vegna að ekki væri verið að afgreiða Sinfóníuhljómsveitarmálið. En í öllu írafárinu og þeim mikla flumbrugangi sem var orðinn í vinnubrögðunum þarna í lokin skilur maður vel að ýmsir hafi upplifað það þannig að þetta væri allt saman einn pakki.

Við teljum hins vegar að þarna sé dæmi um nákvæmlega þau vinnubrögð sem við höfum fjallað töluvert um varðandi Ríkisútvarpsfrumvarpið. Það á auðvitað við um þetta líka og þetta mál hefur eiginlega lent í skugga þess. (Forseti hringir.) En vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar og upplifun mín var allt önnur en hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar.