132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:13]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það var töluvert ójafnvægi á fundi nefndarinnar. Ójafnvægið var þó eingöngu meiri hluta megin vegna þess að það var gífurlegur þrýstingur á meiri hlutann að koma þessu máli, þ.e. Ríkisútvarpsmálinu, frá og úr nefndinni þrátt fyrir að ekki gæfist tími til að ræða það. Það er því ekkert óeðlilegt, frú forseti, eins og ég sagði áðan, að upplifun meiri hlutans hafi verið sú að þetta hafi verið í einum pakka og ég geri út af fyrir sig ekki athugasemdir við það. Við ákváðum það í minni hlutanum strax eftir fundinn að vera ekkert að gera athugasemdir við það. Við vildum hins vegar minnast á þetta til þess að sýna hvernig vinnubrögðin í nefndinni voru þegar þetta gerðist. Æðibunugangurinn var svo mikill að ekki gafst einu sinni tími til þess að vinna af formfestu.

Upplifunin var þessi og við ákváðum sem sagt að gera ekki neinar frekari athugasemdir við þetta. Hv. þm. Mörður Árnason minntist á þetta hér í ræðu sinni og tók það fram að ekki væru fleiri athugasemdir og ekki yrði gert meira með málið. Hins vegar er eðlilegt að aðrir hv. þingmenn sem hér voru í salnum og heyrðu þetta hafi risið upp og talið býsna langt gengið í því að fara gegn forminu sem við göngum venjulega út frá á nefndarfundum. Við sem sátum fundinn settum þetta í eðlilegt samhengi og ákváðum þess vegna að gera ekki frekari athugasemdir við málið. Sú er auðvitað skýringin á því af hverju allt gekk fram sem hv. þingmaður var að nefna.

Þetta er dæmi um það dæmalausa mál sem við höfum verið að ræða varðandi Ríkisútvarpið hvernig að því var staðið. Sinfónían geldur þess að fá ekki nægjanlega umfjöllun af því að það lá svo mikið á að koma Ríkisútvarpinu úr nefndinni. Þess vegna m.a. voru drögin að nefndarálitinu aldrei rædd neitt sérstaklega í menntamálanefnd — af þeirri einföldu ástæðu að Ríkisútvarpið var stóra málið og það var Ríkisútvarpið sem meiri hlutinn var með meirihlutavaldi sínu að taka úr nefndinni gegn vilja minni hlutans og án þess að málið væri fullrætt. Það hefur orðið til þess að við höfum hér í þingsölum þurft að ræða málið frekar. Ekki nóg með það. Á morgun munum við hefja leik að nýju í nefndinni og ræða frumvarpið um Ríkisútvarpið frekar þar.