132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að fara varlega í yfirlýsingum sínum og kannski ástæða til að hann taki eitthvað af orðum sínum aftur umfram það sem hann hefur þegar gert, vegna þess að ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri að dylgja að því að ég og aðrir í meiri hlutanum hefðum verið að semja söguna eftir á. (Gripið fram í.) Skálda raunveruleikann. Það eru mistök sem áttu sér stað, hv. þingmaður sem urðu og hafa oft orðið hér í þingsögunni. En það eru ekki rök fyrir því sem hv. þingmaður lætur að liggja og eru í rauninni alvarlegar ásakanir sem ég veit ekki hvort félagar hans í Samfylkingunni taka undir. Ég mundi nú fara varlega í öllum yfirlýsingum af þessu tagi, hv. þingmaður.

Að lokum vil ég óska hv. þingmanni innilega til hamingju með að hafa haldið þessa ræðu og farið í öll þau andsvör sem hann hefur farið í án þess að hafa reifað sína efnislegu skoðun á þeim efnisatriðum sem fram koma í frumvarpinu. Hv. þingmaður hefur hér farið vítt og breitt yfir sviðið og fjallað kannski meira um önnur frumvörp sem við höfum rætt hér á síðustu vikum. En það er ástæða til að hrósa hv. þingmanni fyrir málflutning hans í þessu máli.