132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:00]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er um nokkuð viðamikið mál að ræða sem hæstv. samgönguráðherra hefur farið yfir í framsögu sinni. Ég geri fastlega ráð fyrir að ekki eigi að afgreiða þetta mál nú í vor. Varla dettur nokkrum manni í hug að þetta verði afgreitt hér á fimm dögum, eins viðamikið mál og um er að ræða. Ég vænti þess að því verði svarað í þessum andsvörum.

Það eru nokkur atriði við fyrstu yfirferð sem mig langar að inna hæstv. ráðherra nánar eftir. Í frumvarpinu um stofnun hlutafélagsins segir að samhliða þeirri þróun sem orði hafi í löndunum í kringum okkur hafi mörg ríki endurskoðað fyrirkomulag flugmála sinna og ráðist í skipulagsbreytingar á því sviði.

Mig langar að vita hvaða ríki það eru helst sem hafa farið í þær skipulagsbreytingar og hvenær þær hafi þá verið gerðar til þess að fá einhvern samanburð um það, nánar en þann sem er hér í greinargerðinni.

Þá er því einnig haldið fram að samfara þeirri þróun sem orðið hafi, og m.a. vegna reglugerðar Evrópusambandsins sem kallast Single European Sky, hafi í auknum mæli verið þrýst á um fækkun flugstjórnarsvæða og aukna skilvirkni í flugumferðarstjórn.

Ég mundi gjarnan vilja fá nánari útskýringar á því hvað hér er átt við og hvaðan þessi þrýstingur komi.

Og í þriðja og síðasta lagi er sagt að það liggi fyrir að flugstjórnarmiðstöðvar beggja vegna Atlantshafsins muni sækjast eftir að taka yfir flugstjórnarsvæði Íslands. Hvar liggur það fyrir? Hvar hefur það komið fram?