132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:31]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ánægjulegt að hlusta á hversu mjög hv. þm. Jón Bjarnason dáist að sjálfstæðismönnunum þeim Þorsteini Pálssyni og Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og vill gera þá að leiðandi ljósi kannski ekki alveg lífsskoðana sinna en alla vega þeirra skoðana sem snúa að rekstri og er þá af mörgu til að taka.

Þar sem einhver grundvallarmisskilningur er varðandi þetta hlutafélagsform sem hér hefur verið rætt um þá er það náttúrlega ekki algilt né einhlítt heldur er aðeins um að ræða heimildir til að fara þessa leið ef svo ber undir. Hins vegar er líka rétt að huga að einmitt Flugmálastjórn og hv. þingmaður man ábyggilega það hörmulega flugslys sem varð í Skerjafirði. Þá var einmitt mjög deilt á Flugmálastjórn hversu samtengdir margir eftirlitsþættirnir voru starfseminni sjálfri, þ.e. Flugmálastjórn. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir talaði réttilega um að eðlilegt væri og rétt að skoða þessa þætti og skipta þeim upp.

Varðandi aftur það sem kemur að hlutafélaginu verð ég að segja að ég hef oft velt vöngum yfir því þegar ríkisbankarnir voru gerðir að hlutafélögum, hvort það geti verið að þar hafi aldrei verið opnaðir gluggar meðan þetta voru ríkisbankar. Hafði fólk ekki sjálfstæða hugsun á meðan það var að starfa fyrir ríkið, fyrir hönd Alþingis því þegar ríkið tók hendur sínar af þessum rekstri gerast þau stórmerki og undur að þessir bankar fara að blómstra og eiga mikil viðskipti úti í hinum stóra heimi og hafa bara gert það gott. Ég held að nauðsynlegt sé að skoða þetta af fullri alvöru og auðvitað kemur þetta fyrir samgöngunefnd þar sem ég og hv. þm. Jón Bjarnason og fleiri, munum skoða þetta mál af alvöru.