132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég minnist vel þessa atviks sem hv. þingmaður var að vitna til um þann skoðanamun og jafnvel deilur sem sköpuðust út af því að Flugmálastjórn færi bæði með eftirlits- og rekstrarþætti hvað þetta varðar. Við komumst aldrei hjá því að gjörðir okkar geti verið umdeilanlegar og þurft að svara fyrir þær fyrir dómstólum, það er alveg klárt. Vafalaust eru rök fyrir því að skilja hér á milli og ég ætla ekkert að gera lítið úr þeim.

Það sem ég lagði áherslu á var að þetta þarf samt ekki að vera svo algilt að við eigum að falla fyrir þessu sem einum og algildum rökum. Eins og nefnt var fyrr er Vegagerðin bæði með eftirlit á vegum og sér líka um viðhald þeirra og eftirlit með umferðarhluta. Þótt segja megi að það gæti stangast á eru líka rök fyrir því að það sé hagræðing og rétt að gera það eins og það frumvarp sem nú liggur fyrir hv. samgöngunefnd um öryggi á þjóðvegum þar sem er verið að færa þessa þætti saman. Það hefur sín rök og líka sín mótrök.

En varðandi hlutafélagavæðinguna þá þarf umgjörð hlutafélagavæðingarinnar að vera í samkeppni og það verður engin samkeppni um að reka flugvöllinn á Gjögri, jafnvel ekki Akureyrarflugvöll, jafnvel ekki Grímseyjarflugvöll. Það verður ekki samkeppni um slíkan rekstur, þetta er grunnalmannaþjónusta og á þess vegna að lúta þeim lögum.

Ég vil spyrja hv. formann samgöngunefndar hvort hann muni ekki beita sér fyrir því í nefndinni að hinir kostirnir verði skoðaðir líka. Að þetta verði áfram ríkisstofnun með þeim lagfæringum sem nauðsynlegt er að gera til að hún uppfylli þau skilyrði sem setja (Forseti hringir.) þarf og hins vegar aðra kosti. Það er spurt hvort við ættum að falla alveg eins og í yfirliði ofan í hlutafélagagryfjuna.