132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:54]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu ólíku saman að jafna Ríkisútvarpinu, sem á að vera íslensk menningarstofnun, og svo aftur félagi sem að stærstum hluta þegar litið er á veltu er að sinna verkefnum í mikilli samkeppni á alþjóðavísu. Þó að tilvitnun í merkan ritstjóra geti verið skemmtiefni í pólitísku skaki þá er þetta svo gersamlega ósambærilegt að það er fráleitt að nota þetta sem röksemd fyrir því að við eigum að hanga á því formi að hafa ríkisstofnun sem ætti að sinna þessum verkefnum á vettvangi flugsins. Ég tel því að hv. þingmaður sé að fara algerlega ranga leið í sínum röksemdafærslum.

Ég undirstrika að hér er um mjög mikilvægt verkefni að ræða, mjög viðkvæma rekstrarstarfsemi þar sem við erum að fara með mikla fjármuni og sinna mikilli og mikilvægri þjónustu þar sem við þurfum að fara eftir mjög ströngum alþjóðareglum og við þurfum að sæta því að ná samningum við alþjóðastofnun um þjónustu.

Til viðbótar er svo þetta verkefni að reka innanlandsflugið sem er þegar litið er á upphæðir mjög lítill hluti af þessu heildarkostnaðardæmi en verður auðvitað að líta til. Ég held að hv. þingmaður muni átta sig á þessu í samgöngunefndinni þegar hann fer betur yfir þetta og er ekki í sjónvarpsmyndavélunum.