132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:04]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, hv. þingmaður dregur fram dökka mynd af vettvangi flugvallarstarfsemi í Bretlandi. Ég er ekki viss um að það sé algilt. Ég held að afar mikilvægt sé fyrir okkur að átta okkur á því að veldur hver á heldur. Það á bæði við í ríkisrekstri og í einkarekstri í formi einkahlutafélaga eða annars konar hlutafélagastarfsemi. Veldur hver á heldur.

Við erum að fjalla um frumvarp þar sem við erum að leggja til breytingar á þessari starfsemi, svo ég endurtaki það, í þeim tilgangi annars vegar að tryggja hagsmuni okkar inn á við, tryggja hagsmuni okkar hvað varðar rekstur allra flugvallanna á Íslandi, hvað varðar það að tryggja rekstur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, sem við höfum tekist á hendur þá ábyrgð að sinna, og við erum að leggja til að koma á skipulagi sem gæti leitt til þess að við tryggðum fleiri störf á vettvangi flugumsjónar og flugvallarstarfsemi og hvers konar þjónustu við flugfélög. Þar gildir veldur hver á heldur. Við Íslendingar höfuð staðið okkur býsna vel á vettvangi hvers konar flugþjónustustarfsemi og ég hef mikla trú á því að okkur gæti tekist að sinna því jafn vel að standa fyrir rekstri á vettvangi flugstarfsemi erlendis með sama hætti og okkar ágætu Íslendingar sem eru í flugfélagaþjónustu eru að gera það mjög gott á vettvangi erlendis. Ég hika ekki við að fullyrða að við eigum að geta gert þetta.