132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við eigum að geta gert þetta og erum að gera þetta. Við erum að gera þetta ágætlega og erum að leita leiða til að bæta þessa þjónustu og horfa jafnframt til skuldbindinga sem við höfum gert gagnvart öðrum þjóðum í margvíslegum alþjóðasamningum. Eftir því sem okkur er sagt komu til álita fjórar leiðir, fjórir valkostir sem allir fullnægja þeim formlegu og lagalegu kröfum sem eru meginforsendur þess að ráðist var yfirleitt í þessa lagasmíð. Við erum að vísa til þessara fjögurra valkosta og við erum að leggja áherslu á að þessir grundvallarkostir verði teknir til umræðu á Alþingi vegna þess að þeir fjalla um pólitíkina, um grundvöllinn sem á síðan að reisa á.

Hæstv. ráðherra talar um nauðsyn þess að tryggja samkeppnishæfni okkar, tryggja öryggi og stöðu starfsmanna. Væri þá ekki ástæða til að hlusta á hvað starfsmennirnir eru að segja og þeirra samtök? Getur hæstv. ráðherra áfellst þá fyrir að sperra við eyrun þegar það kemur fram í undirbúningshópi sem starfar á vegum hæstv. ráðherra að helsti annmarkinn við þá leið að reka þessa starfsemi sem B-hluta stofnun sé að samskipti við starfsmenn lúti þá lögum um ríkisstarfsmenn. Þar er vísað sérstaklega í réttindi og skyldur sem opinberir starfsmenn búa við. Og heldur hæstv. samgönguráðherra að þetta færi fram hjá Alþingi og hagsmunasamtökum órætt? Það sé ekkert við því að gera, þetta komi fram á allra síðustu mínútum þinghaldsins í vetur.