132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vitnar í bréf sem hann las upp fyrr í kvöld í ræðu sinni þar sem gert er að aðalatriði og vitnað í greinargerð vinnuhóps sem vann að undirbúningi. Við erum að fjalla um frumvarp sem er stjórnarfrumvarp. Ég get ekki ímyndað mér að hann finni þessa setningu nokkurs staðar í þeirri greinargerð sem fylgir með því frumvarpi. Mér finnst það mjög einkennilegt af hálfu almannasamtaka, eins og BSRB sem vitnað er í þarna, að slíta út eina setningu úr greinargerð hóps sem vann að undirbúningi málsins (ÖJ: Hvað?) Ég tel ekki eðlilegt að vinna með þeim hætti.

Það er alveg hárrétt að við þurfum að velja á milli kosta. Þessi undirbúningshópur stillti upp valkostum. Valkostirnir voru skoðaðir í ráðuneytinu og ríkisstjórninni og niðurstaðan er þetta frumvarp. Það er annars vegar ríkisstofnun, Flugmálastjórn Íslands sem sinnir flugöryggiseftirlitinu og hins vegar hlutafélag sem fer með rekstrarstarfsemina og þá starfsemi sem er á grundvelli samnings við alþjóðastofnunina. Það er þess vegna alls ekki verið að hafna því að á þessu sviði geti verið heppilegt að hafa hreina ríkisstofnun. Við höfum valið það og frumvarpið gerir ráð fyrir því þannig að ég kaupi a.m.k. ekki þá skýringu hjá hv. þingmanni að ég (Forseti hringir.) hafi eitthvað sérstaklega á móti ríkisstofnun sem slíkri. En ég tel að í þessu tilviki (Forseti hringir.) sé hlutafélagaformið heppilegra og þess vegna er það valið.