132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög góð og gagnmerk ræða sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti eins og hans var von og vísa og fínt innlegg inn í þessa umræðu finnst mér.

Það sem ég vildi heyra hjá honum var afstaða hans til þess að verið sé að stofna hlutafélag sem lýtur umgjörð hlutafélagalaga o.s.frv. sem taki að sér rekstur á flugvöllum, hvort sem það er Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki eða Gjögurflugvöllur eða Grímseyjarflugvöllur. Nú eru þetta samgöngumannvirki og hluti af grunnneti samgangna innan lands. Það brýtur í blað í rekstri grunnsamgöngumannvirkja að fela það hlutafélagi. Við getum séð hvað mundi gerast ef samgönguráðherra yrði svo óheppinn að halda áfram á slíkri braut. Ný og ný grunnsamgöngumannvirki þjóðarinnar í mundu færast eigu hlutfélags sem lýtur lögum um hlutafélög og er hægt að selja þess vegna ef út í það er farið.

Hvað segir hv. þingmaður? Finnst honum þetta vera rétt stefna og rétt þróun?

Ég get skilið orð hans varðandi samkeppnisrekstur við flugleiðsögufyrirtæki í öðrum heimsálfum þó ég sé ekki sammála honum í hugsanlegum niðurstöðum sem hann var að draga þetta saman í. En að setja vissa flugvelli úti um land, sem eru hluti af grunnsamgöngukerfi landsmanna, í þennan einkavæðingarferil sem þarna er verið að leggja til. Ég óska eftir að hv. þingmaður leiði okkur aðeins inn í hugskot sitt hvað þetta varðar.