132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á vissan hátt hryggði hv. þm. Össur Skarphéðinsson mig með því að ljá máls á því að til greina komi setja að flugvelli innan lands sem eru hluti af hinu almenna samgöngukerfi landsins, hluti af grunnþjónustu landsins, í hlutafélög. En ég virði honum það til vorkunnar að eins og hann sagði var hann ekki búinn að setja sig það vel inn í málið. Til dæmis sé ég ekkert í þessum texta sem hindrar að þetta gæti gerst eins og hann var að tala um.

Það hefur verið talinn einn af kostunum við það að stofna hlutafélög að hægt sé að selja út úr þeim eða láta afhenda hluti út úr því fyrirtæki. Í rauninni er það bara hlutaféð sjálft sem ekki má selja eða láta af hendi nema með sérstökum lögum en ekkert annað í sjálfu sér sem getur bannað það. Ég vona að hv þingmaður verði sammála mér í því að ekki komi til greina að vera að einkavæða grunnsamgöngumannvirki landsins eins og hér er verið að leggja til.