132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:28]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að ekki komi til greina að einkavæða grunnsamgöngukerfi landsins. Ég lít svo á að ekki sé verið að gera það með þessu. Ég alla vega skil frumvarpið og þær ræður sem hér hafa verið haldnar í kvöld með þeim hætti að ekki sé hægt að fara þessa leið sem hv. þingmaður nefndi. Ég skil a.m.k. viðkomandi greinar frumvarpsins þannig að þá þyrfti sérstaka lagabreytingu til að það yrði gert. Það þarf t.d. ekki að mínu viti að byrja bútasölu á Ríkisútvarpinu með tilteknum hætti eins og ég hef áður farið yfir.

Nálgun mín er öðruvísi en hv. þingmanns að því leyti til að ég er ekki í grundvallaratriðum á móti hlutafélagaforminu. Það þarf hins vegar að uppfylla ákveðin skilyrði og mér sýnist hugsanlegt, m.a. með hliðsjón af því hvaðan rekstrarfé og tekjur þessa félags mundu koma, að hlutafélagaformið eigi alveg við um þetta, andstætt t.d. Ríkisútvarpinu.