132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:40]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að forðast misskilning tel ég ástæðu til að vekja athygli á því að sá partur ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar þar sem hann fjallaði um framvindu og framgöngu í Búlgaríu á ekkert erindi út af fyrir sig í þessa umræðu um frumvarp til laga um Flugmálastjórn Íslands og hlutafélag vegna okkar starfsemi. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að láta að því liggja að við séum að skapa eitthvert sérstakt umhverfi til að auðvelda slíka framvindu. Það er fjarri öllu lagi enda leggjum við Íslendingar áherslu á að eiga gott samstarf við aðrar þjóðir og á því byggist þessi starfsemi okkar á vettvangi flugsins. Það byggist allt á miklum trúverðugleika, trausti, öryggi, fagmennsku og mikilli þekkingu. Það er það sem við höfum í rauninni selt í gegnum þennan alþjóðasamning við Alþjóðaflugmálastofnunina.

Hvað það varðar hins vegar að það sé ekki samkeppni þá nær flugstjórnarsvæðið sem við höfum með að gera í umboði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ekki yfir allan hnöttinn og flugfélögin eiga val. Þau geta valið að fara aðrar leiðir, fara fram hjá íslenska flugstjórnarsvæðinu. Ef við stöndum okkur svo illa og kostnaðurinn er svo mikill af þessari þjónustu sem við veitum að flugfélögin treysti sér ekki til að fara inn á svæðið þá eigum við ekki nein viðskipti. Út á það gengur málið. Við verðum því að gæta þess að koma á því skipulagi, hafa starfsemina þannig hjá okkar hlutafélagi að við séum samkeppnisfær, að kostnaðurinn verði ekki óyfirstíganlegur þannig að samtök flugfélaga í veröldinni neiti (Forseti hringir.) að senda sínar flugvélar inn á flugstjórnarsvæðið.