132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að velta því svolítið fyrir mér þegar hæstv. ráðherrar og þingmenn koma fram og vara okkur við kreddum, hvað þeir raunverulega eigi við þegar hið margumrædda hlutafélagaform er annars vegar. Mér virðist einhvern veginn eins og slík sé ofurtrú þeirra á þessu rekstrarformi að eftir að það er komið til sögunnar breytist allt. Í þessu tilviki eigi það að vera sömu starfsmennirnir sem fari skyndilega að vinna á einhvern allt annan veg eftir að þeir eru orðnir háeffaðir. Þetta verður sama fólkið. Væri það t.d. til góðs að starfsmenn hæstv. ráðherra í samgönguráðuneytinu yrðu háeffaðir? Mundu þeir starfa eitthvað betur fyrir þá breytingu eina? Er þetta ekki sama fólkið? Það verður sama fólkið þarna líka.

Það sem hins vegar breytist er að réttarstaða þessa fólks verður lakari en hún var áður og það er óumdeilanlegt.