132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[21:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa.

Frumvarpið er afrakstur samvinnu samgönguráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis auk sýslumannsins á Ísafirði og Siglingastofnunar Íslands. Markmið frumvarpsins er að auka skilvirkni og einfalda kerfi varðandi skráningu og þinglýsingu skipa með því að koma á fót samræmdum gagnagrunni á tölvutæku formi sem gildir fyrir landið allt. Með þessum hætti er jafnframt stuðlað að auknu samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skráningarskyld skip. Auk þessa eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna breyttra viðmiða við mælingu skipa.

Með því að taka upp samræmdan gagnagrunn fyrir skráningu og þinglýsingu skipa er stuðlað að auknu réttaröryggi þar sem upplýsingum um skráningarskyld skip verður safnað saman miðlægt á einum stað. Gagnagrunnurinn er tekinn upp í gegnum Landsskrá fasteigna sem er gagna- og upplýsingakerfi á tölvutæku formi en Fasteignamat ríkisins annast rekstur þess. Skráningu og þinglýsingu skipa er þannig háttað í dag að þinglýsingabækur eru handfærðar hjá flestum sýslumannsembættum landsins. Einungis fjögur sýslumannsembætti hafa tekið upp rafræna skráningu og þinglýsingu skipa í tölvukerfum sínum. Þetta fyrirkomulag hefur augljóslega ýmsa ókosti í för með sér. Til dæmis mætti nefna aukna hættu á mistökum við afgreiðslu veðbókarvottorða sem getur valdið aðilum talsverðu tjóni.

Með breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu mun skráning allra þinglýstra skjala fara fram rafrænt á einum stað. Þetta á jafnt við um kaupsamninga, afsöl, veðbönd, kvaðir o.fl. Lagt er til í frumvarpinu að framkvæmd verksins verði falin einu sýslumannsembætti, þó þannig að öll sýslumannsembætti á landinu geti annast móttöku skjala til þinglýsingar eftir sem áður. Á þennan hátt er unnt að tryggja betri yfirsýn og þar með samræmingu við framkvæmd verksins. Auk þess er með breytingunni stuðlað að aukinni sérhæfingu og sem bestri nýtingu sérfræðiþekkingar. Skráning og þinglýsing skipa er í eðli sínu flókið verk og vandasamt og krefst sérfræðiþekkingar sem að mínu mati er best tryggt með því að gera einn aðila ábyrgan fyrir framkvæmdinni. Með því að fela framkvæmdina einu embætti er stuðlað að betri framkvæmd auk þess sem minni hætta verður á mistökum. Veruleg hagræðing verður að því að ekki mun lengur þurfa að senda frumrit skipaskjala milli embætta við sölu þeirra milli skráningarumdæma verði frumvarpið að lögum. Með því að fela verkið einum aðila er stuðlað að einfaldari framkvæmd við skráningu og þinglýsingu skipa auk þess sem réttaröryggi þeirra sem málið varðar er að mínu mati sem best tryggt.

Ástæður þess að farin var sú leið sem í frumvarpinu er lögð til, þ.e. að fela sýslumannsembættinu á Ísafirði að fara með verkið, eru í raun margvíslegar. Staðreyndin er sú að skráning og þinglýsing skipa er verk sem unnið er í nánu samstarfi við skipaskráningu Siglingastofnunar Íslands. Miðað er við að þinglýsingargrunnurinn verði samtengdur aðalskipaskrá Siglingastofnunar. Umdæmisskrifstofa Siglingastofnunar á Ísafirði sér um skráningu skipa í aðalskipaskrá. Sú skrifstofa er staðsett í sama húsnæði og embætti sýslumannsins á Ísafirði þannig að augljóst hagræði er að nálægð embættisins og stofnunarinnar við framkvæmd verksins. Framkvæmd þinglýsingar skipa verður því einfaldari þar sem ekki verður lengur nauðsynlegt að senda tilkynningar um breytta skráningu skipa frá Siglingastofnun til annarra sýslumannsembætta og frá sýslumannsembættum til Siglingastofnunar. Sýslumaðurinn á Ísafirði getur lagt til sérfræðiþekkingu með löglærðum fulltrúum sínum auk þess sem rými er til frekari verkefna innan embættisins. Með þessu móti er stefnt að því að upplýsingar um skip verði ekki skráðar hjá mörgum opinberum aðilum og er það mjög til bóta að mínu mati. Jafnframt er þetta fyrirkomulag í fullu samræmi við það markmið ríkisstjórnarinnar að styrkja byggðarlögin úti á landi með því að færa til þeirra verkefni.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að eftir sem áður geti hvert og eitt sýslumannsembætti á landinu gefið út veðbókarvottorð fyrir skip og báta jafnvel þótt þinglýsingin sjálf fari fram á Ísafirði. Gert er ráð fyrir því að sýslumaðurinn á Ísafirði geti móttekið skjöl með rafrænum hætti sem send eru frá öðrum sýslumannsembættum. Þau skjöl yrðu færð í dagbók á grundvelli rafrænna gagna. Eftir sem áður er jafnframt miðað við að útskrift úr aðalskipaskrá og afgreiðsla útstrikunarvottorða geti farið fram á skrifstofu Siglingastofnunar í Kópavogi. Tilgangur þessa fyrirkomulags er að gera þjónustuþega jafnsetta án tillits til búsetu en eigendur skipa eru búsettir um landið allt eins og kunnugt er.

Með því að koma skráningu og þinglýsingu skipa fyrir á einni hendi er jafnframt stuðlað að einfaldari framkvæmd nauðungarsölu á skráðum skipum. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að sýslumaðurinn á Ísafirði annist alla uppboðsmeðferð á skráðum skipum. Sýslumaðurinn á Ísafirði getur þó ákveðið að lokasala skipa fari fram í öðru sýslumannsembætti fallist það embætti á að taka við sölumeðferðinni.

Í frumvarpinu er lagt til að breytt verði viðmiðun á mælingu skipa úr brúttólestum í brúttótonn. Mismunandi reglur gilda um stofnun og rétt eignarhafta á skrásettum skipum eftir því hvort þau eru fimm rúmlestir eða stærri eða minni en fimm rúmlestir. Ekki er um að ræða neina efnisbreytingu í gildandi reglum og munu þær því taka til svipaðs fjölda skipa og verið hefur. Helsta ástæða breyttrar viðmiðunar er einkum sú að mælieiningin rúmlestir er á undanhaldi með tilkomu nýrrar alþjóðasamþykktar um mælingu skipa og er því eðlilegt að taka upp þessa breytingu í löggjöfinni.

Virðulegur forseti. Ég vil leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. samgöngunefndar.