132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:01]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að með þessu frumvarpi sé lögð til mjög mikil og áreiðanlega tímabær breyting í átt að nútímanum hvað varðar skráningu skipa Íslendinga. Það er þannig í dag að 27 sýslumannsembætti fara með skráningu skipanna, samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Af þessum 27 embættum eru aðeins fjögur sem tölvuskrá skipin í sínu umdæmi. Með þessu frumvarpi er lagt til að búinn verði til miðlægur gagnagrunnur og hann staðfestur og skráningin verði í höndum sýslumannsins á Ísafirði, og vil ég fagna því sérstaklega. Það er verið að efla opinbera starfsemi á Ísafirði.

Það hlýtur þá að fylgja að það dragi að einhverju leyti úr opinberri starfsemi hjá öðrum sýslumannsembættum af því skráning hefur verið hjá öllum sýslumannsembættum á landinu þar sem skip eru til staðar. Eftir því sem fram kemur í greinargerðinni hafa einungis fjögur embætti tölvufært skráningu sína og er það orðað svo að víðast hvar hafi verið skráð í lausblaðabók. Vinnubrögðin sem tíðkast virðast því mjög forn. Nú er hins vegar hægt að senda skjöl með rafrænum hætti á milli embætta auk þess sem frumrit verða send í pósti þar sem þörf er á til að þau verði jafnframt til staðar á Ísafirði til frambúðar.

Ég álít því að þetta frumvarp sé til mikilla bóta og komi í veg fyrir það sem fram kemur hér í fylgiskjali með þessu, en þar segir með leyfi forseta:

„Oft ber aðalskipaskrá Siglingastofnunar og skipabókum sýslumanna ekki saman um eignarheimild svo vikum og mánuðum skiptir.“

Með þessu frumvarpi, þar sem öllum heimildum verður haldið á sama stað, er verið að koma í veg fyrir slíkar uppákomur.

Ég vil lýsa ánægju minni með frumvarpið. Ég á reyndar erfitt með að sjá fyrir mér hvernig eitt atriði gengur upp. Í 5. gr. segir að nauðungarsala á skráðum skipum skuli alfarið vera hjá sýslumanninum á Ísafirði. Skipin eru eðli málsins samkvæmt væntanlega vítt og breitt um landið en það er kannski ekkert nauðsynlegt að hafa eignina til staðar þegar hún er boðin upp. Samkvæmt þessu virðist það ekki eiga að vera. Við fáum væntanlega skýringar á því í samgöngunefnd hvernig þetta á að fara fram. Ég hefði haldið að menn þyrftu að geta skoðað eignina þegar hún er boðin upp en kannski er hægt að gera það áður en til uppboðsins sjálfs kemur. Almennt hefði ég þó haldið að uppboðshaldarinn og eignin þyrftu að vera svona nokkurn veginn á sama stað.

En mér líst, herra forseti, vel á þetta frumvarp.