132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:17]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á að segja um frumvarpið sem hér er um að ræða, um fyrirkomulag við skráningu og þinglýsingu skipa, að ég tel að það sé af hinu góða að það skuli komið fram. Einkum hef ég þar í huga hversu erfitt hefur verið að halda góðri reglu um skráningu skipa, eins og m.a. kom fram hjá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, þar sem hún vitnaði hér greinargerðar og misvísandi skilaboð milli Siglingastofnunar og annarra opinberra aðila sem eiga að sjá um skráningu skipanna.

Það er hins vegar eitt sem rifjast upp þegar þessi texti er lesinn. Það eru ekki mörg ár síðan ég flutti þingsályktunartillögu um að gerð yrði breyting á merkingu þilfarsskipa og sú tillaga var samþykkt. Ísland er eina landið sem skráir fiskiskip með einkennisstöfum, t.d. NK fyrir Neskaupstað eða RE. En alls staðar annars staðar í heiminum eru skipin skráð samkvæmt kallmerki. Eins og bent er á í 18. gr. er talað um að öll loftför séu skráð með sama hætti, þ.e. íslenska kallmerkinu TF og þau síðan skráð í Reykjavík.

Segja má að dálítinn tíma hafi tekið að breyta skráningu bifreiða, að færa hana úr R, G eða A og yfir í þau skráningarmerki sem nú eru við lýði. Ég veit ekki annað en að menn séu nokkuð sáttir við þau. Þess vegna held ég að það væri eðlilegt, til að einfalda þetta kerfi enn frekar, en með þessu frumvarpi er stigið stórt skref í átt að því, að fiskiskip væru merkt einkennisstöfum sínum. Líka í ljósi þess að stærstu fiskiskip eru að veiðum djúpt úti af Íslandi og innan um erlend skip. Ekki væri það verra, t.d. ef óhapp yrði um borð í íslensku skipi og erlendar leitarvélar ætluðu að aðstoða. Þá væri skráning og merking á skipunum þannig að auðvelt væri að átta sig á hvaða skip væri um að ræða.

Ég fagna þessu frumvarpi. Það er vissulega af hinu góða þótt ég hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé umhugsunarefni þegar tiltekið er í frumvarpi til laga hvar starfsemi eigi að vera, hvar hún eigi að fara fram. Hér er sérstaklega tekið fram að það skuli vera á Ísafirði. Mér finnst það óeðlilegt að því leyti að það er ekki víst að það verði hagstætt um aldur og ævi. Þá þarf að kalla eftir frumvarpi aftur á Alþingi ef flytja á starfsemina til.

Varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á varðandi kaupskipin, sem hann tengdi þessu frumvarpi, þá er ekkert íslenskt kaupskip skráð hér að undanskildu einu litlu olíuflutningaskipi sem heitir Laugarnes. Vandamálið er, eins og við höfum margoft rætt um í samgöngunefnd, hið skattalega umhverfi á Íslandi sem ekki hefur enn verið tekið upp eins og annars staðar á Norðurlöndunum. Skattar af áhöfnum eru nánast notaðir til að niðurgreiða laun.

Menn hafa talað um að mikil þörf sé á að byggja álver vegna þess að það skapi svo og svo mörg störf. Eitt álver skapi 250 störf, auk afleiddra starfa, þ.e. að auk 250 starfa í álveri þá verði til miklu fleiri þegar grannt er skoðað. Það hefur líka komið fram í fréttum að innan 10 ára muni álframleiðsla á Íslandi verða 1,6 millj. tonna. Hvað þýðir það? Það þýðir að það þarf að margfalda þessa tonnatölu með 2,4 vegna aðflutninga. Til landsins þarf að flytja um 4 millj. tonna til að framleiða 1,6 millj. tonn af áli, fyrir utan alla aðra flutninga.

Mér þykir hart að það skuli ekki enn hafa náðst fram sambærileg skattaleg rekstrarskilyrði fyrir íslenska kaupskipaútgerð og komið hefur verið á víðast hvar annars staðar. Menn leggja mikið upp úr því að skapa atvinnutækifæri í gegnum álver en auðvitað eigum við heldur ekki að sleppa atvinnutækifærum sem skapast, sérstaklega vegna flutninga frá álverunum en einnig við flutning á aðföngum fyrir álverin.

Ég veit að þetta mál hefur lengi verið í umræðu á milli samgönguráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir við mig að unnið sé að þessu máli í fjármálaráðuneytinu og það skoðað af mikilli alvöru. Ég treysti því að svo sé. Ég vildi geta þessa svo umræðan á Alþingi gæfi ekki til kynna að ekkert væri að gerast í málinu. Ég get hins vegar alveg tekið undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að þetta gengur of seint. Nú er svo komið, eins og hv. þingmaður gat réttilega um, að líklega tengjast um 60 skip íslenskum kaupskipaútgerðum með einum eða öðrum hætti. Þar af eru líklega átta skip í Færeyjum. Þar er tekinn 35% tekjuskattur af áhöfninni en Færeyingar skila útgerðinni aftur 28% sem útgerðin notar til að greiða niður laun og síðan eru 7% eftir í Færeyjum sem er um 200 millj. Ég tel að það hefði verið betra fyrir íslensk stjórnvöld að halda eftir 200 millj. Ég lærði í barnaskóla að það væri meira en 0.

Eins og hv. þingmaður kom líka inn á kom frá Brussel samþykkt um að Norðurlöndin og Evrópa leggi sig fram um að eiga kaupskipaflota til að vera ekki öðrum þjóðum háð hvað varðar flutninga og aðdrætti. Það hljóta náttúrlega allir að sjá að er eðlilegt.

Ég vildi aðeins geta þess sem kom fram í viðræðum mínum við fjármálaráðherra. Ég veit að samgönguráðherra hefur lýst yfir áhuga á þessu máli og trúi ekki öðru en að slíkar breytingar fari að sjá dagsins ljós. Hins vegar stöndum við frammi fyrir þeim vanda að þetta er orðinn hlutur. Bæði Eimskip og Samskip hafa flutt starfsemi sína til Færeyja, þ.e. skráningu áhafna. Það þarf að koma til eitthvað meira og betra á Íslandi en það sem Færeyingar bjóða upp á til að þeir komi aftur. Auðvitað væri gott að öll þau skip sem þar eru gerð út, upp undir 60 eins og fram hefur komið í fréttum, væru skráð hér. Það er eins með þau og álverin, að fyrir hvert eitt starf sem skapað er fyrir farmann þá má segja að tvö og hálft starf verði til í landi.