132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt hárrétt hjá hv. formanni samgöngunefndar að erfitt getur verið að vinna þessi til mál til baka. En staðan sem upp er komin varð til fyrir fullkomið kæruleysi af hálfu stjórnvalda, þ.e. að skráning áhafna og skipa er komin úr landi.

Ég minntist í ræðu minni á fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í Svíþjóð sem átti fund með samgöngunefnd, fjárlaganefnd og fleiri aðilum. Þar var staðan einmitt sú að skipin voru eiginlega öll komin úr landi en þeir hafa smám saman unnið þau til baka. Hann benti á leið sem orðið hefur til að þeir hafa náð árangri. Sú aðferð sem þar var notuð virðist mér a.m.k. í fljótu bragði geta orðið til fyrirmyndar.

Ég held að það sé óþolandi að ekkert sé gert í málinu af hálfu stjórnvalda, óforsvaranlegt og óafsakanlegt. Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins kom eins og réttilega var nefnt fyrir samgöngunefnd í haust og var lítið hrifinn af málinu og hafði sjálfsagt sínar tæknilegu ástæður fyrir því. En þetta er pólitísk spurning líka. Aðrar þjóðir hafa leyft þetta. Til þessa er hvatt af Evrópusambandinu. Þjóðir eru hvattar til að tryggja heimilisfesti áhafna og kaupskipa í viðkomandi landi. Ekki er hægt að bera við ESA-dómstólnum. Sumir ráðherrar gera það, stundum hæstv. iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra þegar henni hentar. Það er ekki hægt í þessu tilviki. Ég hvet því eindregið til að fulltrúar ráðuneytanna komi á fund samgöngunefndar og geri grein fyrir stöðu málsins.