132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þóttu það merkilegar ræður og merkilegar upplýsingar sem formaður samgöngunefndar flutti áðan. Ég hef fylgst með honum berjast í þessum málum árum saman en það hefur ávallt verið við ramman reip að draga. Þar eru einhverjir duldir skrifræðisberserkir, hugsanlega stjórnmálamenn, sem ekki vilja veita þessu máli sinn atbeina.

Það kom fram hjá hv. þingmanni að vilja hæstv. samgönguráðherra skorti ekki. Málið, eins og ég réð af orðum hans, er strand í fjármálaráðuneytinu. Þetta varð mér nokkurt umhugsunarefni. Síðan sagði hv. þingmaður, í andsvari við hv. þm. Jón Bjarnason, að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins væri á móti þessu máli.

Er þetta rétt skilið hjá mér? Er það svo að fjármálaráðuneytið standi gegn þessu? Ég er alveg sammála bernskri reikningskúnst hv. þingmanns, að 200 millj. kr. eru snöggtum hærri upphæð en núll kr. Við höfum horft á þessa starfsstétt flytjast úr landi. Hv. þm. rifjaði upp að helstu skipafélögin okkar eru farin að skrá þau skip sem þau eiga eða reka í Færeyjum. Það þýðir að við verðum að bregðast við ef við viljum halda þessari stétt á lífi sem starfsgrein innan Íslands.

Hæstv. samgönguráðherra lagði áðan fram frumvarp sem hann sagði að hefði m.a. þann að höfuðtilgang að efla samkeppnishæfni þeirrar greinar sem hann mælti þá fyrir. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Finnst honum ekki dálítið undarlegt, ef það er bæði vilji þingheims og hæstv. samgönguráðherra, ef mál strandar á embættismönnum í fjármálaráðuneytinu?