132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má leggja út af orðum hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar með ýmsum hætti. Ég fæ ekki séð að það skipti nokkru máli þótt embættismaður í fjármálaráðuneytinu sé á móti tilteknum breytingum. Þetta er spurning um vilja stjórnmálamannanna, vilja meiri hluta sem kjörinn er á þing. Andspænis þeim vilja skiptir það engu máli þótt þverlundaður og stífur embættismaður í ráðuneyti telji að hugsanleg breyting stríði gegn skattalögum. Hefur ekki Alþingi leyfi til að breyta lögum eða setja lög eins og það vill? Mér finnst þetta alveg fráleitt.

Það sem þetta mál varpar ljósi á er hið undarlega samband hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og þessa embættismanns. Yfirleitt hefur það verið þannig að ráðherrarnir stýri embættismönnunum. Af lýsingu hv. formanns samgöngunefndar virðist sem embættismennirnir í fjármálaráðuneytinu hafi stýrt starfi núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins meðan hann gegndi embætti fjármálaráðherra.

Ég vil einungis ljúka þessu, herra forseti, með því að segja að ég vona að í þeim ólgusjó sem er fram undan í utanríkismálum Íslendinga, ekki síst í samskiptum við Bandaríkjamenn, hafi þessi vinnubrögð ekki flust úr fjármálaráðuneytinu með nýjum ráðherra yfir í utanríkisráðuneytið. Ég bið sannarlega til allra góðra máttarvalda um að ekki verði einhverjir embættismenn, hversu góðir sem þeir eru, í utanríkisráðuneytinu til að stýra störfum hæstv. utanríkisráðherra, eins og virðist hafa verið af þessari lýsingu á dvöl hans í fjármálaráðuneytinu.

Ég skora á hv. þingmann að sameinast mér og öðrum góðum mönnum um að berja upp kjark og vilja hæstv. utanríkisráðherra til að standa í lappirnar. Saman skulum við líka reyna að vinna á þeim hugsanlegu ljónum sem verða á vegi þessa ágæta máls í öðrum ráðuneytum.