132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:39]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að ég hafi talað nógu skýrt fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég sagði að það væri ekki neitt leyndarmál þegar ég upplýsti að þessi ágæti embættismaður hefði komið í heimsókn til samgöngunefndar og lýst yfir andstöðu sinni við málið. Hvort hann var að túlka skoðanir þáverandi fjármálaráðherra læt ég ósagt um en hins vegar var þetta hans afgerandi skoðun um hvernig fara ætti með skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða. Ég var ekki að segja að þessi embættismaður hefði stýrt fjármálaráðherra með einum eða neinum hætti. Þetta var hins vegar afgerandi skoðun hans.

Jú … (Gripið fram í: Hvaðan kom sú skoðun?) …við kölluðum þessa aðila til og báðum þá um að tjá okkur skoðanir sínar á þessu máli. Þetta kom fram hjá þessum ágæta embættismanni fjármálaráðuneytisins. En ég er ekki viss um að hann hafi verið að túlka orð fjármálaráðherra þar með og get ekkert um það fullyrt. En eins og ég sagði áðan hefur núverandi fjármálaráðherra lýst því yfir að það er verið að vinna að þessu máli í fjármálaráðuneytinu.