132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Áhafnir íslenskra fiskiskipa og annarra skipa.

741. mál
[22:40]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa og annarra skipa.

Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu og hjá Siglingastofnun Íslands að höfðu samráði við hagsmunaaðila, þ.e. sjómenn og útvegsmenn. Megintilgangur frumvarpsins er að efla öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra. Með frumvarpinu er jafnframt stuðlað að auknum vörnum gegn mengun sjávar. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum. Verði frumvarpið að lögum koma þau í stað þessara laga.

Með frumvarpi þessu eru ákvæði alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa frá 1995 innleidd í íslenska löggjöf, en Ísland er eitt sex ríkja sem fullgilt hafa samþykktina. Með alþjóðasamþykktinni er stuðlað að samræmingu bindandi lágmarksstaðla um menntun og þjálfun áhafna fiskiskipa 24 metra að skráningarlengd og lengri. Af þessu leiðir að þeir sem gegna tilteknum störfum um borð í þeim íslensku fiskiskipum sem mælast 24 metrar eða lengri skulu að lágmarki lúta þeim kröfum sem gerðar eru í samþykktinni til menntunar og þjálfunar þeirra sem mega gegna viðkomandi störfum. Þó svo að samþykktin hafi enn ekki öðlast gildi alþjóðlega þykir eðlilegt að við endurskoðun laga sé litið til þeirra viðmiða alþjóðasamþykktarinnar sem Ísland hefur fullgilt. Með því eru opnuð ný atvinnutækifæri fyrir íslenska sjómenn til starfa á alþjóðlegum vettvangi. Á sama tíma er tilefni til þess að stuðla að samræmingu atvinnuréttinda til starfa á kaupskipum annars vegar og á fiskiskipum og öðrum skipum hins vegar.

Helstu breytingar samkvæmt frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að skírteini skipstjórnarmanna miðist við lengd skipsins í metrum í stað brúttórúmlestatölu skipsins. Framkvæmdin í dag, þ.e. gildandi löggjöf um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, byggist á brúttórúmlestamælingu skipa. Sú aðferð við mælingu skipa er byggð á alþjóðasamþykkt sem nú hefur verið aflögð. Breyting sú sem lögð er til í frumvarpinu er í samræmi við alþjóðasamþykktina auk þess sem mæling skipa í brúttórúmlestum er að leggjast af. Í nýjum alþjóðasamþykktum er miðað við að skip séu mæld eftir brúttótonnum eða skráningarlengd. Frumvarpið tekur mið af því fyrirkomulagi.

Í öðru lagi er lagt til að lágmarksfjöldi skipstjórnarmanna á fiskiskipum taki mið af skráningarlengd skipsins í stað brúttórúmlesta til samræmis við nýja skírteinaflokka skipstjórnarmanna sem taka mið af skráningarlengd skipsins og útiveru þess. Gildandi lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum kveða nokkuð skýrt á um lágmarksfjölda skipstjórnarmanna háð brúttórúmlestatölu þess. Reglur um mælingu skipa hafa síðan tekið þeim breytingum að mæling skipa í rúmlestum hefur vikið fyrir nýrri aðferð til mælinga á stærð skipa. Stærð skipa mælist nú í brúttó- og nettótonnum í stað brúttó- og nettórúmlesta áður.

Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að atvinnuréttindi og lágmarksfjöldi vélstjórnarmanna á fiskiskipum taki mið af afli aðalvélar í kílóvöttum og útiveru skipsins á svipaðan hátt og í gildandi lögum. Sett eru fram skýr viðmið um lágmarksfjölda vélstjórnarmanna um borð í fiskiskipum. Áskilið er að lágmarksfjöldinn skuli einnig hafa hliðsjón af úthaldi skips og ákvæðum 64. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, um vinnu- og hvíldartíma skipverja. Lagt er til í frumvarpinu að lægsta réttindastigið gildi fyrir afl aðalvélar sem er 750 kW og minna í stað 375 kW og minna samkvæmt gildandi lögum. Framangreind breyting tekur mið af þróun í skipagerð og sjósókn undanfarinna ára. Hún er gerð í þeim tilgangi að einfalda menntunarkröfur og skráningarskírteinisútgáfu vegna vélstjórnarmenntunar og vélstjórnarréttinda.

Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að Siglingastofnun Íslands verði falin útgáfa atvinnuskírteina til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Samkvæmt gildandi lögum hefur útgáfa atvinnuskírteina til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna verið hjá sýslumönnum á landsvísu og tollstjóranum í Reykjavík. Tillagan er sett fram með það að markmiði að unnt sé að einfalda núverandi kerfi og stuðla að auknu samræmi við útgáfu skírteina. Talið er heppilegra að útgáfa atvinnuskírteina sé á einni hendi, þ.e. hjá Siglingastofnun sem hefur yfir að ráða starfsmönnum með mikla sérfræðiþekkingu á sviðinu. Siglingastofnun Íslands fer samkvæmt gildandi lögum með útgáfu alþjóðlegra skírteina og hefur sett upp gæðakerfi til útgáfu slíkra alþjóðlegra skírteina. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að gæðakerfið verði jafnframt notað við útgáfu þeirra skírteina sem hér um ræðir.

Í fimmta lagi er lagt til það nýmæli í frumvarpinu er varðar stjórnendur skráningarskyldra skemmtibáta. Með skemmtibátum er í frumvarpinu átt við þá báta sem skrásettir eru sem skemmtiskip samkvæmt lögum um skráningu skipa. Hér er um að ræða þá báta sem mælast sex metrar á lengd eða lengri mælt milli stafna. Lagt er til að stjórnendum skemmtibáta verði gert skylt að afla sér grunnþekkingar á öryggisþáttum sem tengjast siglingum og skipstjórn skemmtibáta. Hér er hugmyndin sú að stjórnendum skemmtibáta verði gert skylt að sækja þar til gerð námskeið af þessu tilefni. Að námskeiði loknu er í frumvarpinu gert ráð fyrir að nemendur hafi aflað sér fullnægjandi þekkingar og þjálfunar til skipstjórnarréttinda skemmtibáta og öðlast þar til gert skipstjórnarskírteini. Lagt er til í frumvarpinu að sömu skilyrði eigi við um þá aðila sem stjórna erlendum skemmtibátum. Með erlendum skemmtibátum er átt við skemmtibáta sem skrásettir eru erlendis óháð því hvort þeir séu í eigu Íslendinga eða erlendra aðila enda séu þeir notaðir að staðaldri í íslenskri landhelgi. Skulu slíkir aðilar vera handhafar þar til gerðs skipstjórnarskírteinis eða annars sambærilegs erlends skírteinis.

Engin ákvæði eru í gildandi lögum varðandi þær kröfur sem gera skuli til stjórnenda skemmtibáta um menntun og þjálfun. Eins og staðan er í dag eru um 400 skemmtibátar í íslenskri skipaskrá og fer fjölgandi. Áhugi manna á þessari tegund siglinga er því mjög mikill og virðist fara vaxandi. Víða erlendis hafa í mörg ár gilt ítarlegar reglur um menntun og þjálfun þeirra sem stjórna skemmtibátum. Ljóst er að það krefst kunnáttu og þekkingar að stjórna skemmtibáti eins og öðrum bátum. Margir þeirra sem eiga skemmtibáta hafa nú þegar aflað sér nokkurrar menntunar á þessu sviði. Mikilvægt er að stjórnendur slíkra báta þekki siglingareglur á umferðarleiðum til þess að fyllsta öryggis sé gætt. Einnig er mikilvægt að þeir geti brugðist rétt við hættu á neyðarstundu. Auknar líkur eru á mistökum ef kunnáttan er lítil. Að teknu tilliti til öryggissjónarmiða og þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru er það mat mitt að brýnt sé að gera bragarbót á því tómarúmi sem í dag er ríkjandi varðandi þessa tilteknu tegund báta. Lagt er til í frumvarpinu að ákvæðið taki gildi 1. janúar 2007. Eftir þann tíma verði allir sem stjórna skráningarskyldum skemmtibátum í íslenskri landhelgi að hafa aflað sér tilskilinnar menntunar og þjálfunar og hafi fengið útgefið þar til gerð skírteini.

Í sjötta lagi er gerð er krafa um að kröfur til atvinnuréttinda skipstjórnarmanna verði samræmdar. Samræmingin felst í því að um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á fiskiskipum sem eru styttri en 24 metrar að skráningarlengd gildi aðeins eitt réttindastig. Þessi breyting er komin til fyrst og fremst vegna breyttra aðstæðna. Þau viðmiðunarmörk sem þessi atvinnuréttindi miðuðust við hafa stöðugt færst ofar. Nú er svo komið að skip sem mælast undir 30 brúttórúmlestum eru að veiðum á sömu miðum og mun stærri fiskiskip. Þrátt fyrir það eru kröfur til menntunar og þjálfunar skipstjórnarmanna mjög frábrugðnar og hafa í för með sér talsverða mismunun. Með vísan til þeirrar þróunar sem orðið hefur í útgerð minni fiskiskipa, úthaldi þeirra og búnaði þykir fullt tilefni til þess að þeir sem gegna stöðu skipstjóra á þessum bátum hafi sömu eða sambærilega menntun og þjálfun og þeir sem gegna sömu stöðu á mun stærri bátum á sömu miðum.

Samhliða framangreindri breytingu er lagt til að samgönguráðherra sé heimilt í reglugerð að setja reglur um útgáfu skírteina til skipstjórnarmanna á fiskiskipum sem eru allt að tíu metrar að mestu lengd til siglinga á takmörkuðu hafsvæði. Þessi tillaga er sett fram þar sem breyting atvinnuréttinda, eins og frumvarpið mælir fyrir um, hefur ekki að markmiði að setja auknar álögur á þá sem hafa með höndum skipstjórn á trillum og litlum fiskiskipum sem eingöngu eru notuð til innfjarðarveiða eða veiða á mjög afmörkuðum svæðum. Aðstæður við strendur landsins eru með þeim hætti að tilefni er til að gera sömu kröfur til allra þeirra sem öðlast vilja rétt til að gegna stöðu skipstjóra á skipum lengri en 24 metrar að skráningarlengd. Ljóst er þó að endurskoða þarf námskrá og nám skipstjórnarmanna með hliðsjón af nýjum forsendum samkvæmt frumvarpinu.

Á sama hátt og gildir um lágmarksfjölda vélstjórnarmanna er áskilið að lágmarksfjöldi skipstjórnarmanna skuli taka mið af úthaldi skips og ákvæðum 64. gr. sjómannalaga og um vinnu- og hvíldartíma skipverja. Þó er gerð sú lágmarkskrafa að á hverju fiskiskipi skuli vera skipstjóri auk þess sem áskilnaður er gerður um fjölda stýrimanna á skipum tiltekinnar stærðar að teknu tilliti til útiveru.

Í sjöunda og síðasta lagi eru í frumvarpinu skilgreind nokkur hugtök — auk þess er þar skilgreining sem ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um — en þau eru í samræmi við ákvæði alþjóðasamninga.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. samgöngunefndar.