132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:07]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér eru engar sérstakar takmarkanir í þessu lagafrumvarpi um það við hvers konar friðargæsluverkefni þátttaka Íslendinga kynni að takmarkast. Hér stendur einvörðungu í 1. gr. að utanríkisráðuneytinu sé heimilt að taka þátt í alþjóðlegri friðargæslu og senda fólk til starfa við friðargæsluverkefni í því skyni og síðan er það útlistað nánar. En ég tel rétt að benda á, eins og ég gat um í framsögu minni, að miðað við þá reynslu sem fengin er, er langlíklegast að þessi verkefni takmarkist við starfsemi á vegum ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, NATO, Evrópuráðsins, Evrópusambandsins, norræns samstarfs og fleira þess háttar, þó að ekki sé hægt að útiloka fyrir fram neitt sérstakt annað. Ég vek athygli á því, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, að íslenskur friðargæsluliði hefur verið í Írak.