132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:08]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er ekki að leyna að það er skoðun þess sem hér stendur að þau hörmulegu mistök, að ég tel, sem ríkisstjórn Íslands urðu á með því að gera okkur að einni hinna viljugu þjóða í tengslum við innrásina í Írak gefa ekki það traust á ríkisstjórnina eða tilefni til þess að Alþingi samþykki fyrirvaralausar og takmarkalausar heimildir til handa hæstv. utanríkisráðherra að senda Íslendinga til átakasvæða, jafnvel undir vopnum, eins og er greinilega skilningur hæstv. utanríkisráðherra á þessu frumvarpi. Hann vísaði líka til þess að á okkar vegum hafi verið friðargæsluliðar, m.a. í Írak. Ég vil því nota tækifærið og spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Á vegum hvaða alþjóðastofnunar og í hvaða samhengi voru þar t.d. íslenskir sprengjuleitarmenn sérstaklega að störfum?

Ég vil líka spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki ætti að vera fullnægjandi að Alþingi framseldi valdheimildir þessar hvað varðaði verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins þar sem við höfum þegar gengist undir ákveðnar alþjóðlegar skuldbindingar, en ef fara ætti út fyrir starf á vegum þessara stofnana, eins og t.d. í nýju bandalagi viljugra þjóða, þyrfti sérstakt samþykki Alþingis fyrir því. Og hvort ekki væri jafnvel til íhugunar, þar sem við höfum ekki komið að friðargæslustarfi með skömmum fyrirvara hingað til heldur haft ágætt ráðrúm til þess, að það þyrfti í raun og veru sérstakt samþykki Alþingis fyrir hverju verkefni. Hér er jú verið að tefla á tvær hættur og senda menn inn (Forseti hringir.) á átakasvæði og slík ákvörðun felur í sér (Forseti hringir.) mikla ábyrgð sem efast má um að rétt sé að leggja á eina persónu, hæstv. utanríkisráðherra. (Forseti hringir.)