132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:41]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem kom með nokkrar athugasemdir og spurningar. Fyrst varðandi það sem þingmaðurinn nefndi um konur og friðargæsluna og þá vil ég leyfa mér að taka undir þau sjónarmið svona í aðalatriðum sem þar komu fram um að friðargæslan eigi að vera opin bæði konum og körlum og verkefnin sem hún tekur að sér eigi að vera þess eðlis að þau henti bæði konum og körlum. Það má vel vera að rétt sé að huga að orðalagi í þessu frumvarpi og væntanlegum lögum sem geri þetta skýrt.

Hvað varðar siðareglurnar þá eru þær reglur ekki tilbúnar en ég geri ráð fyrir að þær verði sýndar í utanríkismálanefnd þingsins þegar það gerist.

Varðandi önnur verkefni en þau sem nú hefur verið sinnt, þ.e. verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna, t.d. matvælaaðstoðarinnar, þá eru það hlutir sem eru í undirbúningi. Það hefur t.d. verið nefnt að senda fólk til Darfúr í Súdan þar sem þörfin er brýn og neyðin mikil en ekki hefur verið gengið frá því enn sem komið er.

Varðandi aðrar spurningar sem komið hafa fram í umræðunni þá er hægt að fá upplýsingar um stöðu einstakra friðargæsluverkefna þegar málið kemur til meðferðar í utanríkismálanefnd sem og nánari skýringar á einstökum greinum þessa frumvarps.