132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:32]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Á fundi menntamálanefndar í morgun, eftir beiðni okkar í minni hluta nefndarinnar, gaf formaður hennar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, út yfirlýsingu, svaraði tilboði okkar um að starfa að ríkisútvarpsmálinu í sumar — og má bæta við að fjölmiðlafrumvarpið nýja kæmi vel inn í það starf. Hann sagði um þetta að hann hafnaði þessu boði okkar. Ég harma það því að þetta var af okkar hálfu hugsað sem sáttaumleitan og leið til þess að gera frumvarpið um Ríkisútvarpið betra. Það byggðist auðvitað á málamiðlunum þar sem enginn fengi allt sitt. En það er ekki meiningin af hálfu formannsins.

Ég bið um það, sérstaklega í ljósi nýrra tíðinda í þessu máli, að ekki bara hann, hv. þingmaður, heldur líka forustumenn stjórnarflokkanna íhugi þetta tilboð upp á nýtt.

Fjölmiðlafrumvarp var kynnt í gær. Sigurður Líndal gerði strax þá athugasemd við það frumvarp að vafi leiki á því hvort reglur í því standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Sigurður Líndal var á fundi hjá okkur áðan og þá kom í ljós að eftir að hann hafði séð frumvarpið hafði verið bætt inn í það grein, sennilega eftir hádegi í gær, sem er á þá leið að ríkisstjórninni sé óheimilt að eiga hlut í öðrum fyrirtækjum sem gefa út dagblað eða reka útvarpsstöð. Það var athyglisvert að Sigurður sagði að þetta væri vissulega til bóta hvað varðar það vandamál sem hann fengist við en ástæða væri til að fara betur yfir allt þetta samhengi ríkisútvarpslaganna og fjölmiðlalaganna.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að þessi mikilvæga grein er ekki í lögunum um Ríkisútvarpið, sem hér eru til umræðu milli 2. og 3. umr., heldur í allt öðru frumvarpi sem á að samþykkja eftir á. Ég held því að nú sé komið að því að við hættum þessu rugli og tökum þessi mál saman og vinnum þau í sumar eins og menn.